Körfubolti

Gasol ekki meira með á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Gasol.
Marc Gasol. Vísir/EPA

Marc Gasol, miðherji Memphis Grizzlies, spilar ekki fleiri leiki á þessu NBA-tímabili og er það mikið áfall fyrir liðið að missa sinn besta leikmann.

Gasol þurfti á laugardag að gangast undir aðgerð vegna fótbrots og þar með varð það ljóst að hann er úr leik það sem eftir lifir tímabilsins.

Forráðamenn Memphis Grizzlies eru vissir um að Marc Gasol nái sér að fullu og snúi aftur heill heilsu á næsta tímabili.

Marc Gasol skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Memphis Grizzlies síðasta sumar eftir frábært tímabil þar sem hann komst í byrjunarlið í Stjörnuleiknum og var valinn í úrvalslið ársins.

Gasol hefur skorað 16,6 stig, tekið 7,0 fráköst og gefið 3,8 stoðsendingar að meðaltali í 52 leikjum á þessu tímabili. Hann var með 17,4 stig og 7,8 fráköst í leik í fyrra.

Hann meiddist í leik á móti Portland 8. febrúar síðastliðinn. Grizzlies-liðið hefur unnið 2 af 3 leikjum sínum síðan liðið missti Marc Gasol í meiðsli.

Memphis Grizzlies er eins og er í fimmta sæti í Vesturdeildinni með 32 sigra og 23 töp. Liðið er því á leiðinni í úrslitakeppnina svo framarlega sem liðið missi ekki dampinn.

Grizzlies fékk til sín þá Chris Andersen, P.J. Hairston og Lance Stephenson áður en glugginn lokaði og lét frá sér í staðinn þá Courtney Lee og Jeff Green.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira