Sport

Diaz við McGregor: Þú ert á sterum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Eins og greint var frá í nótt mun Conor McGregor mæta Nate Diaz á UFC 196 bardagakvöldinu í Las Vegas þann 5. mars.

Upphaflega átti McGregor að berjast við Rafael Dos Anjos, heimsmeistarainn í léttvigt, en hann varð að draga sig úr keppni vegna meiðsla.

Diaz var fenginn til að fylla í skarð Dos Anjos og verður bardagi þeirra í veltivigt - tveimur þyngdarflokkum fyrir ofan fjaðurvigt en McGregor er nú ríkjandi meistari í þeim flokki.

Í kvöld var svo haldinn blaðamannafundur þar sem þeir McGregor og Diaz sátu fyrir svörum. Helsta athygli vakti að Diaz sakaði McGregor og í raun allan UFC-heiminn um að vera á sterum.

„Þeir eru allir á sterum. Allir,“ sagði Diaz. McGregor svaraði þá um hæl, harðneitaði að hann væri á sterum og ítrekaði að hann væri mikið á móti steranotkun.

„Allir í UFC eru á sterum,“ sagði Diaz stuttu síðar og uppskar hlátur í salnum. McGregor benti honum þá á að liðsfélagar hans hefðu fallið á lyfjaprófi en Diaz lét sér fátt um finnast og ítrekaði fyrri orð sín.

„Já, auðvitað,“ sagði McGregor þá í kaldhæðni. „Ég er bara dýr. Bara dýr.“

Blaðamannafundinn má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×