Innlent

Eigendum óheimilt að greiða sér arð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnir í dag breytingar á fyrirkomulagi heilsugæslunnar undir yfirskriftinni Endurbætur í heilsugæslunni – fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Breytingarnar, sem hafa verið í undirbúningi um nokkurra mánaða skeið, fela fyrst og fremst í sér breytingar á fjármögnun. Heilsugæslustöðvar verða ekki lengur fjármagnaðar með föstum fjárveitingum heldur fylgir fjármagn verkefnum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kynnti ráðherra breytingarnar fyrir fagfólki í gær.

Vonast er til að opnaðar verði þrjár nýjar heilsugæslustöðvar til viðbótar við þær sautján sem núna eru reknar. Gert er ráð fyrir að þessar heilsugæslustöðvar verði einkareknar en skilyrði er að félagið sem rekur heilsugæslustöðvarnar verði sjálfstæður lögaðili og að meirihluta í eigu heilbrigðisstarfsmanna sem við stöðina starfa, í að minnsta kosti 80 prósent starfshlutfalli að jafnaði. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun rekstraraðilum verða óheimilt að greiða sér arð út úr rekstrinum.

Með nýja greiðslukerfinu er horft til sænsks kerfis sem hefur verið kallað „Vårdval“. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, fjallaði ítarlega um kerfið í desember. Oddur Steinarsson, lækningaforstjóri á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði þá við Markaðinn að þetta nýja kerfi væri nauðsynlegt til þess að Íslendingar geti verið samkeppnishæfir við önnur Norðurlönd. „Þetta er í boði á hinum Norðurlöndunum,“ sagði Oddur og bætti við að kerfið í Danmörku og Noregi byggi nánast eingöngu á einkareknum stöðvum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×