Innlent

Alþýðusambandið lýsir furðu yfir viðbrögðum Ragnheiðar Elínar

Svavar Hávarðsson skrifar
Halldór Grönvold
Halldór Grönvold

Alþýðusamband Íslands lýsir furðu yfir viðbrögðum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í vikunni til að stemma stigu við kennitölu­flakki.

Flutningsmenn frumvarpsins voru fulltrúar allra flokka á Alþingi, annarra en Sjálfstæðisflokksins, en málið er frá Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, komið. Þar er að meginefni lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, heldur á penna og segir að framtak flutningsmannanna veki athygli á þeirri staðreynd að Ragnheiður Elín, sem fer með málaflokkinn, „hefur þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aðeins látið hjá líða að gera nokkuð til að sporna við þeirri samfélagslegu meinsemd sem kennitölu­flakkið er heldur hreinlega lagst gegn öllum hugmyndum í þeim efnum.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Tilefni skrifanna er viðtal við ráðherra í kvöldfréttum RÚV. Þar sagði ráðherra að frumvarp Karls væri íþyngjandi, ekki síst fyrir nýsköpunarfyrirtæki þar „sem menn þurfa oft á tíðum að gera margar tilraunir með rekstur“.

Halldór gerir kröfu um að Ragnheiður Elín skýri orð sín og vísar í greinargerð ASÍ um kennitöluflakk þar sem gerð er grein fyrir hversu mikil meinsemd kennitöluflakk er, og hversu einbeittur brotavilji margra er með tilheyrandi stórskaða fyrir samfélagið.

Karl segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að litið hafi verið til ákveðinna hluta í lagasetningu nágrannaríkja þegar frumvarpið var skrifað, en þar hafa verið settar í lög takmarkanir sem svipar til þeirra sem frumvarpið fjallar um. Aðallega hafi þó verið horft til hugmynda ASÍ til að berjast gegn kennitöluflakki. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira