Körfubolti

Skvettubræður í stuði í enn einum sigri Golden State | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thompson og Curry skoruðu samtals 75 stig gegn Miami.
Thompson og Curry skoruðu samtals 75 stig gegn Miami. vísir/getty

Tíu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Stephen Curry og Klay Thompson skoruðu samtals 75 stig fyrir Golden State Warriors sem vann sex stiga sigur, 112-118, á Miami Heat á útivelli. Golden State hefur unnið 51 af 56 leikjum sínum á tímabilinu.

Curry skoraði 42 stig í nótt en þetta er í níunda sinn á tímabilinu sem hann gerir meira en 40 stig í leik. Thompson kom næstur með 33 stig en hann gerði m.a. 15 stig í röð í 4. leikhluta.

Dwayne Wade var stigahæstur í liði Miami með 32 stig og þá var Hassan Whiteside með 21 stig og 13 fráköst af bekknum.

Oklahoma City Thunder lagði Dallas Mavericks að velli, 103-116.

Russell Westbrook og Kevin Durant skoruðu báðir 24 stig fyrir Oklahoma en sá fyrrnefndi gaf einnig 13 stoðsendingar. Dirk Nowitzki var stigahæstur í liði Dallas með 33 stig.

LeBron James og Kyrie Irving skoruðu 23 stig hvor fyrir Cleveland Cavaliers sem komst aftur á sigurbraut með 114-103 sigri á Charlotte Hornets á heimavelli.

Cleveland er í efsta sæti Austurdeildarinnar en liðið hefur unnið 41 af 56 leikjum sínum í vetur.

Úrslitin í nótt:
Miami 112-118 Golden State
Dallas 103-116 Oklahoma
Cleveland 114-103 Charlotte
Indiana 108-105 New York
Detroit 111-91 Philadelphia
Toronto 114-105 Minnesota
Chicago 109-104 Washington
Memphis 128-119 LA Lakers
LA Clippers 81-87 Denver
Sacramento 92-108 San Antonio

Curry var heitur í nótt Bestu tilþrif Kobe Bryant gegn Memphis
NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira