Viðskipti innlent

Engar hvalveiðar í sumar: „Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan hefðum við aldrei byrjað aftur“

Bjarki Ármannsson skrifar
Hvalur hf. hyggst ekki veiða neina hvali næsta sumar þar sem fyrirtækinu hefur gengið illa að koma hvalaafurðum á markað í Japan. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, segir að hann hefði aldrei hafið hvalveiðar á ný ef hann hefði vitað af rannsóknaraðferðum Japana, sem hafi verið fyrirtækinu Þrándur í Götu undanfarin ár.

Þetta segir Kristján í samtali við Morgunblaðið. Þar er haft eftir honum að aðferðirnar sem Japanir beiti við efnagreiningar á hvalaafurðum séu rúmlega fjörutíu ára gamlar og hvergi notaðar annars staðar í heiminum. Hvalveiðum fyrirtækisins sé sjálfhætt ef Japnir taki ekki upp aðrar rannsóknarafurðir.

„Ef við hefðum vitað hvað var í vændum í Japan þegar við hófum aftur hvalveiðarnar 2009, eftir tuttugu ára hlé, þá hefðum við aldrei byrjað aftur,“ segir Kristján við Morgunblaðið.

Hvalveiðar fyrirtækis Kristjáns, sem er það eina sem stundað hefur hvalveiðar við Íslandsstrendur síðastliðin ár, hafa verið í meira lagi umdeildar. Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt þær, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt þær skaða ímynd Íslands og erlendir tölvuþrjótar ítrekað gert árásir á íslenskar vefsíður í mótmælaskyni við þær.

Í nýlegri umfjöllun Stundarinnar um Hval hf. segir meðal annars að ársreikningar fyrirtækisins sýni tap upp á rúman einn og hálfan milljarð á liðnum árum þrátt fyrir að Kristján hafi ítrekað sagt hvalveiðar standa undir sér fjárhagslega. Japan hefur í áraraðir verið eini markaður Hvals hf. fyrir langreyðarkjöt.


Tengdar fréttir

Segja hvalveiðar hafa lítil áhrif á samskipti ríkjanna

Fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og formaður utanríkisnefndar eru sammála um að afstaða Bandaríkjamanna til hvalveiða og pólitískur þrýstingur vegna þeirra hafi ekki eitrað samskipti þjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×