Körfubolti

Sjáið lið Snæfells og KR vinna bikarana í draugsýn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfellskonur fagna sigri í bikarúrslitaleiknum.
Snæfellskonur fagna sigri í bikarúrslitaleiknum. Vísir/Hanna
Hörður Tulinius á karfan.is var á bikarúrslitadegi körfuboltans í Laugardalshöllinni á dögunum og hann hefur nú sett saman tvö mögnuð myndbönd úr bikarúrslitaleikjum karla og kvenna.

Snæfell og KR hafa bæði unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár en fögnuðu þarna langþráðum bikarsigrum, Snæfell þeim fyrsta í sögu kvennaliðs félagsins en KR þeim fyrsta í sex ár.

Hörður Tulinius tók upp leikina með sérstakri myndavél þar sem hægt að er sjá allt í draugsýn en hann setti líka inn svona myndbönd í fyrra. Herði tekst vel upp að vanda og á hann mikið hrós skilið að búa til þessa ómetanlegu heimild um bikarúrslitaleikina.

Myndböndin frá bikarsigrum KR og Snæfells má sjá hér fyrir neðan.

Snæfellskonur unnu 78-70 sigur á Grindavík í bikarúrslitaleik kvenna. Haiden Denise Palmer var með þrennu í leiknum (23 stig, 13 fráköst, 10 stoðsendingar, 5 stolnir) en fyrirliðinn Gunnhildur Gunnarsdóttir (23 stig, 5 þristar) átti einnig magnaðan dag.

Landsliðskonurnar Bryndís Guðmundsdóttir (13 stig og 16 fráköst) og Berglind Gunnarsdóttir (12 stig og 5 fráköst) voru líka í stórum hlutverkum í leiknum.

Myndband Harðar af sögulegum sigri Snæfellsliðsins má sjá hér fyrir neðan.

KR-ingar höfðu aðeins unnið einn af síðustu sex bikarúrslitaleikjum sínum fyrir bikarúrslitaleikinn á móti Þór og töpuðu leiknum í fyrra á móti Stjörnunni.

KR vann 95-79 sigur á Þór úr Þorlákshöfn í bikarúrslitaleik karla. Helgi Már Magnússon var með 26 stig á 26 mínútum og var valinn maður leiksins.

Michael Craion bætti við 17 stigum og 13 fráköstum, Ægir Þór Steinarsson skoraði 15 stig og gaf 6 stoðsendingar g þá var fyrirliðinn Brynjar Þór Björnsson með 12 stig.

Pavel Ermolinskij skoraði bara 3 stig en var með 11 fráköst, 9 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Myndband Harðar af langþráðum sigri KR-liðsins má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Vill vinna fyrir fólkið í bænum

Haiden Palmer, bandarískur leikmaður Snæfells í Domino's-deild kvenna, hefur flakkað á milli landa undan­farin tvö ár. Hún nýtur lífsins í Stykkishólmi þar sem hún getur einbeitt sér að körfuboltanum.

Langþráðir bikararar á leiðinni?

Bikarúrslitaleikjadagurinn er runninn upp og fyrstu stóru bikarar körfuboltatímabilsins fara á loft í Laugardalshöllinni í dag. Karlalið KR og kvennalið Snæfells hafa bæði unnið bæði Íslandsmeistaratitilinn og deildarmeistaratitilinn undanfarin tvö tímabil en hvorugt liðið hefur náð að fagna bikarmeistaratitli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×