Heilsuvísir

Offita alvarlegt vandamál: „Foreldrar íslenskra barna verða bara að drullast í gang“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Egill var ekkert að skafa af því í morgun
Egill var ekkert að skafa af því í morgun vísir

Einkaþjálfarinn og útvarpsmaðurinn Egill Einarsson er með vikulegt heilsuhorn í morgunþættinum Brennslan á FM957 og ræddi við þá félaga, Kjartan Atla Kjartansson og Hjörvar Hafliðason í morgun um heilsuna.

Í síðustu viku var umræðan um of þung börn nokkuð hávær hér á landi og er það vaxandi vandamál.

„Við verðum bara að skrifa þetta á foreldrana, ég er alls ekki að reyna vera leiðinlegur en þetta er 99 % foreldrunum að kenna. Foreldrar íslenskra barna verða bara að drullast í gang. Feitt barn verður feitt þegar það er orðið fullorðið,“ segir Egill sem fær mikið af börnum til sín sem þurfa aðstoð við þetta vandamál. 

„Ég fæ börn til mín sem eru 8,9 og tíu ára sem eru allt of þung. Yfirleitt þegar ég fæ barn til mín sem er of þungt, þá er yfirleitt foreldrið sem kemur með það einnig of þungt. Þegar t.d. barnið kemur heim úr skólanum og það er bara til brauð, safi og morgunkorn þá bara skrifast þetta á þig, þú ert foreldrið. Þú verður líka að kenna börnunum hvað er hollt og hvað er drasl.“

Hann segir að mataræði barna skipti höfuðmáli.

„Skólarnir eru líka margir hverjir úti að skíta þegar kemur að þessu. Sumir skólar eru reyndar betri en aðrir og ég verð að fá að taka það fram en sumir eru með allt lóðrétt. Krakkarnir vilja allir vera í betra formi. Ég hef aldrei fengið til mín krakka sem er 8 til tíu ára gamall og er 20-30 kílóum og þungur og vill vera þannig. Þau bara kunna þetta ekki. Ef maður kennir þeim aftur á móti vel og sýnir þeim hvernig mataræðið á að vera þá sér maður árangur strax. Við erum að tala um lítil börn sem vilja ekki lengur mæta á skólaskemmtun. Sjálfstraustið kemur mjög fljótlega hjá þeim og þau fara strax að brosa meira og þeim líður bara betur,“ segir Egill og bendir aftur á að öll börn geta náð árangri, það þarf bara að kenna þeim. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira