Innlent

Vill að heilsugæslan geti greitt arð

jón hákon halldórsson skrifar
Heilbrigðisráðherra  kynnti í gær breytingar á greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðisþjónustunni.
Heilbrigðisráðherra kynnti í gær breytingar á greiðslufyrirkomulagi í heilbrigðisþjónustunni. Vísir/anton

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segist ekki skilja það markmið heilbrigðisráðherra að meina rekstraraðilum heilsugæslustöðva að greiða sér arð af rekstri fyrirtækisins.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti í gær breytt greiðslufyrirkomulag í heilsugæslunni. Hann vonast til þess að þrjár nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar verði opnaðar fyrir árslok. Á blaðamannafundi í gær sagði ráðherra að rekstraraðilar heilsugæslustöðva myndu ekki geta greitt sér arð. Yrði afgangur af rekstri ætti hann að fara í uppbyggingu heilsugæslustöðvarinnar.

„Ég skil ekki og ég hef sagt það við Kristján af hverju heimilislæknar eða rekstraraðilar þessarar heilbrigðisþjónustu þurfi að vinna við einhver önnur skilyrði en önnur heilbrigðisfyrirtæki. Eins og þetta hefur verið praktíserað á Norðurlöndunum, þá eru engar hömlur á þessu fremur en öðru,“ segir Þórarinn Ingólfsson.

Kristján Þór sagði aftur á móti að á meðan heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu væri undirfjármögnuð væri óeðlilegt að reka tvöfalt launakerfi. „Þannig að mér fannst eðlilegt í þeirri stöðu sem við erum í að vera bara með einfalda skýra línu og ná að byggja heilsugæsluna upp með öllum þeim fjármunum sem hægt er að fá til hennar áður en að við förum í þennan fasa.“

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna.

Birgir Jakobsson landlæknir sagðist telja að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu væri að ná sýnilega góðum árangri í heilbrigðisþjónustunni. „Að geta sýnt öðrum og sjálfum sér fram á það. það er mín reynsla en síðan getum við rætt endalaust um bónusgreiðslur og launatengdan afrakstur og svo framvegis.“ Undir þetta tók Þórarinn. Auðvitað vilja allir fá góða umbun fyrir sín störf en það hefur ekki úrslitaáhrif

Þórarinn sagði mikilvægt fyrir starfsfólk heilsugæslunnar að geta skapað sín eigin starfsskilyrði. „Það að standa í rekstri er svolítið annað en að mæta í vinnuna og stimpla þig inn og út. Það er meiri ábyrgð. Það er starfsmannahald og svo framvegis,“ sagði Þórarinn. Hann sagði að áhugi yngri lækna á eigin rekstri væri meiri. Þeir sem eldri væru hefðu síður áhuga á að vinna kvöld- og helgarvinnu við skipulagningu, starfsmannahald og fleira.

Þórarinn sagði að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi komið mjög illa út í könnun sem var gerð á meðal sérnámslækna fyrir tveimur árum. „Það voru held ég fjórir læknar af fjörutíu sem vildu vinna þar. Það verður að gera eitthvað.“

Jón Hákon Halldórsson

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira