Körfubolti

Martin bestur á vellinum fyrir framan mömmu og pabba | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson var stigahæstur LIU í nótt.
Martin Hermannsson var stigahæstur LIU í nótt. mynd/liu
Martin Hermannsson heldur áfram að fara á kostum fyrir LIU Brooklyn í bandarísku háskólakörfunni, en íslenski landsliðsmaðurinn og félagar hans unnu heimasigur á Central Connecticut Blue Devils, 80-74, í nótt.

Leikurinn var jafn og spennandi undir lokin, en gestirnir minnkuðu muninn í 74-71 með þriggja stiga körfu þegar 50 sekúndur voru eftir. Þá var brotið á Martin sem fór á vítalínuna og skoraði úr báðum vítunum en þannig gekk hann í raun frá leiknum.

Sjá einnig:Rétt ákvörðun að brjótast í gegnum vegginn

Martin var stigahæstur sinna manna í nótt með 20 stig en að auki tók hann fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hann hitti úr átta af þrettán skotum sínum utan að velli og öllum fjórum vítaskotunum.

Íslenski landsliðsmaðurinn gat ekki annað en boðið upp á slíkan stjörnuleik þar sem foreldrar hans og systkini eru í heimsókn hjá honum og voru vitaskuld á leiknum.

Martin og félagar í LIU eru búnir að vinna 15 leiki af 28 á tímabilinu, þar af eru þeir með níu sigra og átta töp í norðaustur deildinni. Þeir eru eftir sigurinn í sjötta sæti sinnar deildar og öruggir í úrslitakeppnina.

LIU á einn deildarleik eftir áður en kemur að úrslitakeppninni. Liðið mætir Bryant-háskólanum um helgina, en með sigri þar og hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum gæti það klifrað aðeins upp töfluna.

Hér að neðan má sjá þrjú myndbönd með tilþrifum Martins frá leiknum í nótt.

Martin fer strandanna á milli og skorar:
Glæsileg stoðsending:
Önnur falleg stoðsending:

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×