Handbolti

Haukabaninn Íris Björk | 72% markvarsla á lokakaflanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íris Björk lokaði marki Gróttu á lokakaflanum gegn Haukum í gær.
Íris Björk lokaði marki Gróttu á lokakaflanum gegn Haukum í gær. vísir/stefán

Markvörðurinn Íris Björk Símonardóttir átti magnaðan leik þegar Grótta tryggði sér sæti í úrslitaleik Coca Cola bikarsins í handbolta með eins marks sigri, 30-29, á Haukum í gær.

Leikurinn var æsispennandi en tvær framlengingar þurfti til að knýja fram úrslit. Lovísa Thompson skoraði sigurmark Gróttu sem mætir Stjörnunni í bikarúrslitum klukkan 13:30 á morgun.

Grótta byrjaði leikinn betur og komst í 3-1 en Haukar svöruðu með fimm mörkum í röð og voru með frumkvæðið allt þar til á lokamínútunum.

Seltirningar breyttu um vörn um miðjan seinni hálfleik og tóku tvo leikmenn Hauka úr umferð. Það sló Hafnfirðinga út af laginu en þeir leiddu samt, 19-22, þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Þá tók Íris hins vegar til sinna ráða og hreinlega lokaði markinu.

Íris varði „aðeins“ 35,3% af þeim 34 skotum sem hún fékk á sig fyrstu 49 mínútur leiksins en tók hins vegar 18 af þeim 25 skotum sem hún fékk á sig það sem eftir lifði leiks. Það gerir 72% hlutfallsmarkvörslu sem er einstök tölfræði.

Á þessum tíma varði Íris hvorki fleiri né færri en fjögur vítaköst af þeim sex hún fékk á sig, auk þess sem síðasta vítakast Hauka hafnaði í stönginni.

Íris tók einnig fjölmörg dauðafæri á mikilvægum augnablikum eins og þegar hún varði frá Mariu Ines De Silve Pereira í hraðaupphlaupi í stöðunni 28-28 þegar mínúta var eftir af fyrri framlengingunni. Hún tryggði svo Gróttu aðra framlengingu þegar hún varði vítakast Ramune Pekarskyte þegar 16 sekúndur voru eftir af fyrri framlengingunni.

Í seinni framlengingunni skellti Íris svo endanlega í lás og varði þá átta af þeim níu skotum sem hún fékk á sig (88,9%). Maria var sú eina sem fann leiðina framhjá þessum frábæra markverði í seinni framlengingunni en það mark kom úr víti.

Ótrúlegur lokakafli Írisar Bjarkar gegn Haukum (frá því í stöðunni 19-22 þegar 11 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma):

18 skot varin af 25 (72%)
6 langskot
4 víti
4 úr horni
3 af línu
1 hraðaupphlaup

Markvarsla Írisar Bjarkar í öllum leiknum:
30/4 skot varin af 59/9 (51%)

Íris reynir að verja skot Jónu Sigríðar Halldórsdóttur. vísir/ernir

Tengdar fréttir

Lovísa: Fékk útrás í sókninni

Lovísa Thompson, leikmaður Gróttu, var merkilega róleg eftir að Seltirningar tryggðu sér sæti í bikarúrslitum með 30-29 sigri á Haukum í tvíframlengdum leik í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira