Körfubolti

Ekki gott fyrir OKC ef Durant og Westbrook stela þrumu hvors annars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Russell Westbrook.
Kevin Durant og Russell Westbrook. Vísir/Getty

Kevin Durant og Russell Westbrook eru stórstjörnur NBA-liðsins Oklahoma City Thunder og hafa verið það undanfarin ár.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um samvinnu þeirra tveggja, þeir virðast vissulega vera fínir félagar en eru oft aðeins of frekir á boltann og ná kannski ekki nógu vel saman inn á vellinum.

Þannig dugði það ekki liði Oklahoma City Thunder í nótt að Kevin Durant og Russell Westbrook skoruðu saman 76 stig. Liðið tapaði engu að síður 123-119 á móti New Orleans Pelicans.

Russell Westbrook var með 44 stig og 9 stoðsendingar í leiknum en Kevin Durant skoraði 32 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Frábærar tölur hjá tveimur frábærum leikmönnum.

Þegar tvær stærstu stjörnur liðsins eru með 76 stig og 16 stoðsendingar þá þykir það magnað að það dugi ekki til sigurs á móti liði sem er langt frá því að vera með fimmtíu prósent sigurhlutfall.

Tölfræði ESPN fóru því á stúfana og skoruðu hvernig gengi Oklahoma City Thunder liðsins er í vetur þegar bæði Kevin Durant og Russell Westbrook skora 25 stig eða meira. Þar komu athyglisverðir hlutir í röð.

Oklahoma City Thunder hefur nefnilega aðeins unnið 9 af 18 leikjum sínum á tímabilinu þegar þeir Kevin Durant og Russell Westbrook skora báðir 25 stig eða meira.

Gengi Thunder-liðsins er nefnilega miklu betra þegar bara Kevin Durant skorar 25 stig eða meira en ekki Westbrook (14-4, 78 prósent sigurhlutfall), Russell Westbrook skorar yfir 25 stig en ekki Durant (4-0, 100 prósent) eða þegar hvorugur þeirra nær að skora 25 stig en þá státar lið Oklahoma City Thunder að hundrað prósent sigurhlutfalli í vetur (11 sigrar - 0 töp).

Leikurinn í nótt var jafnframt fjórði leikurinn í röð sem Oklahoma City Thunder tapar í venjulegum tíma þar sem þeir Kevin Durant og Russell Westbrook skora báðir 30 stig eða meira.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira