Innlent

Hefur ekki áhyggjur af "shaken-baby“ máli

Þórdís Valsdóttir skrifar
Sigurður Guðmundsson var árið 2001 sakfelldur fyrir að hafa valdið dauða níu mánaða drengs. Á síðasta ári úrskurðaði Endurupptökunefnd að dómurinn skyldi falla úr gildi og málið tekið upp að nýju.
Sigurður Guðmundsson var árið 2001 sakfelldur fyrir að hafa valdið dauða níu mánaða drengs. Á síðasta ári úrskurðaði Endurupptökunefnd að dómurinn skyldi falla úr gildi og málið tekið upp að nýju. Vísir/ernir

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður segir að dómur Hæstaréttar um að Endurupptökunefnd geti ekki fellt úr gildi eldri dóma breyti engu varðandi mál sem nefndin hefur kveðið á um að taka skuli upp að nýju.

Í júní 2015 var samþykkt beiðni Sigurðar Guðmundssonar, skjólstæðings Sveins Andra, um endurupptöku máls þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa valdið dauða níu mánaða gamals drengs með því að hrista hann árið 2001. Nefndin úrskurðaði að eldri dómur Hæstaréttar skyldi felldur úr gildi.

Mikið var fjallað um mál Sigurðar í fjölmiðlum en drengurinn sem lést var í daggæslu hjá Sigurði og þáverandi eiginkonu hans. Sigurður hlaut átján mánaða dóm í Hæstarétti og sat í fangelsi í ár. Hann barðist fyrir endurupptöku í fjölda ára. Beiðni Sigurðar um endurupptöku byggði að miklu leyti á nýjum gögnum sem haft hefðu mikil áhrif á niðurstöðu málsins.

Sveinn Andri Sveinsson. Fréttablaðið/GVA

„Í dómi Hæstaréttar sem féll á fimmtudag segir dómurinn einfaldlega að þeir séu ekki að kveða upp nýjan dóm í málinu vegna þess að Endurupptökunefndin hafði ekki heimild til að ógilda gamla dóminn þannig að hann stendur og þess vegna er málinu vísað frá,“ segir Sveinn Andri og bætir við að hann telji að það sama yrði uppi á teningnum með mál Sigurðar. „Ef Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að gögnin sem lögð voru til grundvallar endurupptökunni myndu valda því að sýkna bæri manninn þá myndi dómurinn kveða upp sýknudóm í málinu. Ef dómurinn teldi á hinn bóginn að gögnin hefðu ekki dugað til að sýkna, þá yrði málinu einfaldlega vísað frá og fyrri dómur Hæstaréttar myndi standa,“ segir Sveinn Andri.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari telur að verkefni Endurupptökunefndar séu öll í uppnámi eftir dóm Hæstaréttar. Sveinn Andri er ósammála því og segir að ákvörðun Endurupptökunefndar í máli Sigurðar, um að taka skuli mál upp að nýju, standi alveg sjálfstæð. „Ég sé þetta ekki sem neitt vandamál fyrir mitt mál. Þrátt fyrir að Endurupptökunefndin hafi ógilt dóminn þá er Hæstiréttur í raun einungis að segja að sú athöfn að mæla fyrir um endurupptöku máls sé stjórnsýsluathöfn, og það getur nefndin alveg gert,“ segir Sveinn Andri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira