Erlent

Facebook sker upp herör gegn hatursorðræðu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mark Zuckerberg
Mark Zuckerberg vísir/afp

Mark Zuckerberg, stofnandi og helsti stjórnandi Facebook, segir að samskiptamiðillinn verði að standa sig betur þegar kemur að því að taka á hatursorðræðu. Þetta kom fram á málfundi sem haldinn var í Berlín fyrir skemmstu. Fjallað er um málið á vef BBC.

Fundurinn snerist að miklu leiti um innflytjendur og málefni þeirra. Margir hópar sem berjast gegn þeim og þeirra hag hafa sprottið upp í Þýskalandi síðustu mánuði í kjölfar aukins straums þeirra til landsins. Facebook hefur verið gagnrýnt fyrir að ganga ekki nógu hart fram gegn aðilum sem láta í ljós andúð sína á fólkinu.

„Það er ekki staður á Facebook fyrir svona efni. Eftir að hafa kynnt okkur betur þýska sögu og menningu þá fer það ekki milli mála,“ sagði Zuckerberg á fundinum. Fjöldi laga er í gildi í landinu sem á að tryggja öryggi minnihlutahópa til að hörmungar síðustu aldar endurtaki sig ekki. „Hatursorðræða gegn innflytjendum er nú meðal þess sem Facebook mun ekki umbera.“

Ekki er ljós hvenær eða hvernig Facebook mun hefja að berjast gegn slíkum hópum eða skeytum eða hvort það gerist. En ný stefna virðist hafa verið mótuð. Fregnir herma að þýska dómsmálaráðuneytið vinni núa að því að ná samkomulagi við samskiptamiðla til að fá þá til að vera sneggri til að taka út efni sem brýtur í bága við lagabókstafinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira