Innlent

Birgitta óttast að fylgið þurrkist út og reynir að berja í brestina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Birgitta ritaði hvatninguna á vefsvæði Pírata.
Birgitta ritaði hvatninguna á vefsvæði Pírata. Vísir/Daníel

„Höfum hugfast að í hvert skipti sem við beinum gremju eða andúð gagnvart hvert öðru þá erum við að skemmta skrattanum og sá stuðningur sem við höfum fengið mun hverfa eins og dögg fyrir sólu.“

Þetta segir þingmaðurinn Birgitta Jónsdóttir í færslu til Pírata en meintur samskiptavandi innan flokksins hefur verið fyrirferðamikill að undanförnu.

Sjá einnig: Birgitta biðst afsökunar á sínum hlut í deilum innan Pírata

Vísir greindi til að mynda frá því í gær þegar Birgitta sakaði kafteininn Helga Hrafn Gunnarsson um að fara með „stórkostlega mikla rangfærslu“ í tengslum við hugmyndir Pírata um stutt kjörtímabil. Þá viðurkenndi hún einnig að hafa beðið Helga sérstaklega um að fara ekki í viðtöl um ágreiningsmál innan flokksins.

Sjá einnig: Birgitta sakar kafteininn um stórkostlega mikla rangfærslu

Af viðbrögðum að dæma hefur færsla Birgittu fallið í kramið hjá Pírötum.

Ljóst er að með þessari færslu vill Birgitta reyna að berja í brestina af ótta við að fylgi Pírata kunni annars að minnka.

Þeim áhyggjum deila mörg flokkssystkin hennar sem ítrekað hafa kallað eftir því, á Pírataspjallinu og við færslur þingmanna flokksins á Facebook, að þeir finni lausn á vandanum.
Færsla Birgittu er beint innlegg í þá umræðu en í færslunni skrifar hún að sama skapi:

„Samfélagið okkar er í molum, verjum frekar tíma okkar í að leita raunverulegra lausna fyrir samfélagið í heild. Þjóðin okkar er orðin örmagna vegna þeirra sundrungar sem hér er alltaf alið á og er þekkt leið til að klekkja á samtakamætti þjóðar.“

Sjá einnig: Helgi Hrafn segir að þurfi að leysa samskiptavanda innan Pírata
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingmenn Pírata reyna að vinna bug á pirringnum innan flokksins. bæði Birgitta og Helgi Hrafn talið sig nauðbeygð til að ávarpa hann síðustu daga. Þannig sendi Birgitta opið bréf til Pírata þar sem hún baðst opinberlega afsökunar á sínum hlut í innanflokksdeilunum.

Helgi Hrafn tjáði sig að sama skapi um málið og sagði að finna þyrfti leið til að „takast á við samskiptavanda af þessum toga,“ eins og hann orðaði það


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira