Körfubolti

Cleveland hvíldi LeBron og tapaði öðrum leiknum í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Cleveland Cavaliers, topplið austurdeildarinnar í NBA, tapaði öðrum leiknum í röð í nótt þegar liðið lá í valnum á útivelli gegn Washington Wizards, 113-99.

Cleveland hvíldi LeBron James í leiknum og átti í raun og veru aldrei séns því Washington náði mest 30 stiga forystu. Toppliðið átti fyrir höndum þrjá leiki á fjórum dögum og ákvað að hvíla sinn besta leikmann á milli leikja eitt og þrjú.

Otto Porter Jr. og John Wall voru stigahæstir Washington-liðsins sem er í tíunda sæti austurdeildarinnar og í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Wall gaf að auki þrettán stoðsendingar.

Þar sem Toronto var án Kyle Lowry í nótt og tapaði fyrir Detroit heldur Cleveland tveggja sigra forskoti á toppnum. Kyrie Irving var lang stigahæstur Cavaliers með 28 stig.

Það var Detroit Pistons sem lagði Toronto að velli í nótt, en það gerði Detroit á heimavelli sínum, 114-101. Þetta er fjórði sigur liðsins í röð eftir að það tapaði fimm í röð þar á undan. Detroit er nú jafnt Chicago og Charlotte í baráttunni um sjöunda sætið.

Reggie Jackson var stigahæstur Detroit með 19 stig en miðherjinn magnaði Andre Drummond skoraði 15 stig og tók 18 fráköst. DeMar DeRozan var stigahæstur Toronto með 20 stig.

Í spilaranum hér að ofan má sjá tíu flottustu tilþrif næturinnar.

Úrslit næturinnar:
Washington Wizards - Cleveland Cavaliers 113-99
Atlanta Hawks - Charlotte Hornets 97-76
Detroit Pistons - Toronto Raptors 114-101
Indiana Pacers - Portland Trail Blazers 102-111
Orlando Magic - Philadelphia 76ers 130-116
Dallas Mavericks - Minnesota Timberwolves 128-101
New York Knicks - Miami Heat 81-98

Staðan í deildinni.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira