Enski boltinn

Ekkert hungur í leikmönnum Arsenal sem skilja ekki stöðuna sem liðið er í

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger getur ekki horft.
Arsene Wenger getur ekki horft. vísir/getty

„Tap Arsenal á móti Manchester United var sérstaklega svekkjandi því það sýndi að leikmenn liðsins hafa ekki andlegan styrk til þess að berjast um titilinn.“

Þetta segir Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal, um sitt gamla lið í uppgjöri á stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni þar sem Skytturnar töpuðu fyrir vængbrotnu liði Manchester United, 3-2.

Sjá einnig: Wenger: Fengum of auðveld mörk á okkur

„Stuðningsmenn Arsenal vita að liðið á mikinn möguleika á að vinna úrvalsdeildina en liðið virðist ekki skilja stöðuna sem það er komið í og hvað þarf til að klára verkefnið,“ segir Wright.

Arsenal mætti með sitt sterkasta lið á Old Trafford á sama tíma og Louis van Gaal þurfti að stilla upp hinum 18 ára gamla Marcus Rashford í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik.

Ashford þakkaði traustið og skoraði tvö mörk annan leikinn í röð, en hann skaust fram á sjónarsviðið á fimmtudagskvöldið með tveimur mörkum í Evrópudeildarleik gegn Midtjylland.

Sjá einnig: Rashford fer í efnafræðipróf á morgun

„Það eru ellefu leikir eftir, en eins og staðan er sé ég ekki lið sem getur unnið deildina þegar ég horfi á Arsenal,“ segir Wright, en Arsenal er þó ekki nema fimm stigum á eftir toppliði Leicester og þremur stigum á eftir Tottenham sem er í öðru sætinu.

„Leicester eða Tottenham vinnur deildina en ég veit ekki hvort þeirra það verður,“ segir Ian Wright.


Tengdar fréttir

Hver er þessi Rashford? | Sjáðu öll mörkin

Marcus Rashford er búinn að skora tvívegis gegn Arsenal í fyrri hálfleik en með því varð hann yngsti leikmaðurinn í sögu Manchester United sem skorar tvö mörk í sama deildarleik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira