Fótbolti

Messi kominn yfir 30 marka múrinn áttunda tímabilið í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Lionel Messi skoraði og lagði upp fyrir Barcelona þegar Spánarmeistararnir komu til baka og unnu Sevilla, 2-1, eftir að lenda 1-0 undir á heimavelli í gærkvöldi.

Sevilla er síðasta liðið sem vann Barcelona, en það gerðist í byrjun október á síðasta ári. Síðan þá eru Börsungar án taps í 34 leikjum í röð og vantar einn leik án taps til viðbótar til að bæta met Real Madrid frá 1989.

Mark Messi kom úr glæsilegri aukaspyrnu. Þetta er 30. markið sem hann skorar í öllum keppnum á tímabilinu og hefur hann nú skorað 30 mörk eða fleiri undanfarin átta tímabil í röð.

Hann skoraði 38 mörk í öllum keppnum tímabilið 2008/2009 en svo 47 árið eftir, svo 53 og loks 73 mörk tímabilið 2011/2012. Hann hefur undanfarin þrjú tímabil skorað 60, 41 og 58 mörk í öllum keppnum.

Í ár hefur Messi skorað 16 mörk í 21 deildarleik, fimm mörk í fjórum bikarleiknum, fimm í fjórum leikjum í Meistaradeildinni og fjögur í öðrum keppnum.

Messi er sjöfaldur Spánarmeistari og stefnir hraðbyri að áttunda titlinum með Katalóníurisanum, en eftir sigurinn í gærkvöldi er liðið með átta stiga forskot á toppi spænsku 1. deildarinnar.

Markið glæsilega sem Messi skoraði í gær má sjá í spilaranum hér að ofan en það kemur eftir 26 sekúndur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira