Fótbolti

Messi kominn yfir 30 marka múrinn áttunda tímabilið í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Lionel Messi skoraði og lagði upp fyrir Barcelona þegar Spánarmeistararnir komu til baka og unnu Sevilla, 2-1, eftir að lenda 1-0 undir á heimavelli í gærkvöldi.

Sevilla er síðasta liðið sem vann Barcelona, en það gerðist í byrjun október á síðasta ári. Síðan þá eru Börsungar án taps í 34 leikjum í röð og vantar einn leik án taps til viðbótar til að bæta met Real Madrid frá 1989.

Mark Messi kom úr glæsilegri aukaspyrnu. Þetta er 30. markið sem hann skorar í öllum keppnum á tímabilinu og hefur hann nú skorað 30 mörk eða fleiri undanfarin átta tímabil í röð.

Hann skoraði 38 mörk í öllum keppnum tímabilið 2008/2009 en svo 47 árið eftir, svo 53 og loks 73 mörk tímabilið 2011/2012. Hann hefur undanfarin þrjú tímabil skorað 60, 41 og 58 mörk í öllum keppnum.

Í ár hefur Messi skorað 16 mörk í 21 deildarleik, fimm mörk í fjórum bikarleiknum, fimm í fjórum leikjum í Meistaradeildinni og fjögur í öðrum keppnum.

Messi er sjöfaldur Spánarmeistari og stefnir hraðbyri að áttunda titlinum með Katalóníurisanum, en eftir sigurinn í gærkvöldi er liðið með átta stiga forskot á toppi spænsku 1. deildarinnar.

Markið glæsilega sem Messi skoraði í gær má sjá í spilaranum hér að ofan en það kemur eftir 26 sekúndur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira