Innlent

Minjastofnun ósátt með fyrirhugaða sameiningu

Bjarki Ármannsson skrifar
Starfsfólk Minjastofnunar Íslands ítrekar óánægju sína með þau áform forsætisráðuneytisins að sameina Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun.
Starfsfólk Minjastofnunar Íslands ítrekar óánægju sína með þau áform forsætisráðuneytisins að sameina Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun. Vísir/Anton Brink

Starfsfólk Minjastofnunar Íslands ítrekar óánægju sína með þau áform forsætisráðuneytisins að sameina Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun, en starfsfólkið segir að sú sameining myndi leiða til óeðlilegrar samþjöppunar valds og bjóða heim hættu á margvíslegum hagsmunaárekstrum.

Þetta segir í tilkynningu frá starfsfólki stofnunarinnar til fjölmiðla. Greint var frá því í síðustu viku að lagt væri til að sameina stofnanirnar í nýju lagafrumvarpi stýrihóps á vegum forsætisráðherra. Ný stofnun, Þjóðminjastofnun, yrði til og myndi allt að tíu prósenta hagræðing geta náðst innan áratugar með sameiningunni.

Sjá einnig: Friðlýsing húsa og mannvirkja færð undir forsætisráðuneytið

Í kjölfarið var greint frá því að enginn starfsmaður Minjastofnunar hefði séð lagafrumvarpið áður en það var sent til hagsmunaaðila. Forstöðumaður stofnunarinnar, sem átti sæti í stýrihópnum, þurfti að óska eftir því við ráðuneytið að fá frumvarpið sent. Í tilkynningu frá Minjastofnun í dag segir að ekki hafi verið vel staðið að undirbúningi málsins.

„Má sem dæmi nefna að eftir að skipað var í stýrihóp um málið voru haldnir þrír fundir í hópnum áður en niðurstöður greiningar Capacent á stofnununum og tillögur að breyttri stofnanaskipan voru kynntar ráðherra,“ segir í tilkynningunni. „Stofnanirnar höfðu þá ekki fengið greiningarnar til umsagnar eða séð endanleg gögn Capacent.“

Sjá einnig: Sáu ekki frumvarpið áður en það var sent

Í tilkynningunni er einnig gerð athugasemd við það að Capacent hafi einungis verið falið að skoða sameiningu Þjóðminjasafns og Minjastofnunar en að eðlilegra hefði verið að skoða fleiri kosti í víðara samhengi. Sameining Þjóðminjasafns og Minjastofnunar muni leiða til óeðlilegrar samþjöppunar valds þar sem einn forstöðumaður hefur yfir að ráða starfi höfuðsafns menningarminja í landinu, rannsóknum og stjórnsýslu menningararfs auk þess að úthluta fjármagni úr sjóðum.

„Sameining Minjastofnunar og Þjóðminjasafns býður heim hættu á margvíslegum hagsmunaárekstrum sem meðal annars fela í sér stjórnsýslulegar umsagnir um erindi fyrirtækja sem styrkt hafa Þjóðminjasafnið og sýningar þess,“ segir í tilkynningunni. „Einnig má nefna að Minjastofnun hefur gefið umsagnir um breytingar á friðlýstri byggingu og fleiri verkefni í eigu umsvifamikils fasteignafyrirtækis sem Þjóðminjasafnið hefur nýverið gert leigusamning við um geymsluhúsnæði.“

Tilkynningu starfsfólks Minjastofnunar má finna í viðhengi við þessa frétt.


Tengd skjöl


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira