Innlent

Segir skartgriparánið hafa verið „skyndiákvörðun“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Axel Karl leiddur fyrir dómara árið 2005 þegar hann var ákærður fyrir að ræna starfsmanni Bónus á Seltjarnarnesi.
Axel Karl leiddur fyrir dómara árið 2005 þegar hann var ákærður fyrir að ræna starfsmanni Bónus á Seltjarnarnesi. Vísir/GVA
„Ég man voða lítið hvernig þetta skeði, það er orðið langt síðan,“ sagði Axel Karl Gíslason, einn þeirra sem ákærðir eru fyrir skartgriparán í Hafnarfirði síðastliðið haust. Hann vildi ekki tjá sig um það fyrir dómi hvernig hann losaði sig við skartgripi sem hann og annar maður, Ásgeir Heiðar Stefánsson, rændu þegar hann gaf skýrslu.

Axel Karl og Ásgeir Heiðar eru ákærðir fyrir að hafa fimmtudaginn 22. október 2015 ráðist vopnaðir inn í Gullsmiðjuna við Lækjargötu í Hafnarfirði og tekið þaðan skartgripi að verðmæti tæplega tveggja milljóna króna. Þriðji maðurinn, Mikael Már Pálsson, er einnig ákærður fyrir ránið en honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í skipulagningu þess og að hafa tekið við þýfinu og greitt þeim fyrir.

Átti að gerast um kvöld

Axel sagði að ránið hefði „skeð bara einhvern veginn svona“ og að það hafi verið „skyndiákvörðun.“

„Við fórum þarna tveir inn og tókum einhverja skartgripi,“ sagði hann.

Ásgeir Heiðar bar fyrir dómi að til hafi staðið að ræna skartgripunum að kvöldi til með því að brjóta glugga verslunarinnar og grípa þar skartgripi. Allt í einu hafi það plan breyst. „Það átti allt að vera lokað en svo allt í einu breyttist eitthvað hjá Axel og þetta þurfti bara að gerast strax. Af hverju veit ég ekki,“ sagði hann í skýrslunni. „Einhvern veginn gerðist þetta bara á 20 mínútum eða eitthvað.“

Á þessum tuttugu mínútum fundi þeir til exi, neyðarhamar og lambhúshettur sem þeir notuðu til að hylja andlit sín. Ásgeir Heiðar bar því við að þetta hafi allt verið tilbúið þar sem til hafi staðið að nota við rán að kvöldi til.

Gullsmiðjan stendur við Lækjargötu í Hafnarfirði.Vísir/Vilhelm
Einn neyðarhamar og ein exi

Ásgeir Heiðar sagðist ekki hafa orðið var við exina fyrr en að inn í búðina var komið. Sjálfur sagðist hann ekki hafa verið vopnaður. „Ég var með engin vopn en ég var með neyðarhamar sem er ætlaður til þess að brjóta rúður,“ sagði hann en eini tilgangurinn með hamrinum átti að vera að brjóta rúður.

Eftir ránið flúðu þeir út í bifreið sem beið fyrir utan. Henni óku þeir áleiðis til Keflavíkur. Ásgeir sagði að Axel hefði bölvað mikið og verið mikið í símanum á meðan þeir óku flóttabílnum. Hann hafi meðal annars bölvað því að einhver ónefndur aðili hafi ekki verið þar sem hann átti að vera. Ásgeir sagðist lítið geta vitnað um hvað hafi farið fram í þessum símtölum. „Öskur og læti og ég skildi ekki helminginn af þessu,“ sagði hann.

Axel Karl sagði fyrir dómnum að þeir hafi keyrt eitthvað áleiðis út á Reykjanes „Við fórum bara út og keyrðum eitthvað í burtu,“ sagði hann um hvað þeir gerðu eftir ránið. „Við keyrðum bara inn á Reykjanes bara,“ sagði hann. Þeir hittu svo Mikael við Grindavíkurafleggjarann á Reykjanesbrautinni.

„Ég skuldaði honum pening,“ sagði hann um af hverju hann hafði beðið Mikael um að hitta þá. Mikael fékk þó ekki greidda skuldina en skutlaði þeim til Keflavíkur. Aðspurður hvað þeir hefðu verið að gera í Keflavík svaraði Axel: „Ég vil ekki tjá mig um það.“

Þegar hann var hins vegar spurður aftur sagði hann: „Við fórum til Keflavíkur og losuðum okkur við skartgripina,“ sagði hann en neitaði að tjá sig um það hvernig þeir losuðu sig við skartgripina.

Ræningjarnir flúðu á hvítum Nissan jepplingi sem þeir skildu eftir við Grindavíkurafleggjarann.Mynd/Loftmyndir.is
Röng ákvörðun að skutla

Mikael sagði í sinni skýrslu að hann hafi ekið þeim til Keflavíkur vitandi að þeir hafi verið nýbúnir að ræna skartgripaverslun. „Ég keyrði þá bara til Keflavíkur, ég var ekki sáttur en ég gerði það bara. [...] Ég veit það ekki ég bara tók þessa ákvörðun þarna. Hún var vitlaus en ég gerði það,“ sagði hann.

„Ég ek þeim til systur hans Axels,“ sagði hann aðspurður hvert hann hafi skutlað þeim. Axel hafi þar farið inn með þýfið og komið út um þrjátíu mínútum síðar með vafinn pakka sem hann hafi reynt að borga honum skuldina með. „Ég tók ekki við þessu.“

Mikael er gefið að sök að hafa tekið þátt í að skipuleggja ránið. Enginn sakborninganna þriggja vildi þó kannast við það.

Efast um símagögn

Samkvæmt upplýsingaskýrslu um símagögn voru 127 tengingar á milli síma þeirra Mikaels og Axels Karls á sex daga tímabili. Á sama sólarhring og ránið er eru 9 tengingar á milli símana. Bæði Mikael og Axel Karl drógu í efa að samskipti hefðu verið svona mikil.

„Ég man ekki eftir svona miklum samskiptum sko,“ sagði Axel Karl um þessi miklu samskipti.

Mikael kannaðist hins vegar við að hafa reynt ítrekað að ná sambandi við Axel. „Hann skuldaði mér pening en hann svaraði aldrei,“ sagði hann og bætti við hann skildi ekki hvernig það gætu verið gögn um 126 tengingar á milli síma síns og Axels Karls. Mikael staðfesti að skuldin væri tilkomin vegna fíkniefna.

Í símagögnunum kemur meðal annars fram að Axel Karl hafi hringt í Mikael fimm mínútum fyrir ránið og svo aftur sjö mínútu eftir það.

Tjónið hleypur á milljónum króna.Vísir/Vilhelm
Afhenti skartgripina í Keflavík

Ásgeir segir að í Keflavík hafi Axel afhent einhverjum töskuna og fengið í staðinn, að hann minnti, 200 þúsund og 200 grömm af fíkniefnum. Það er sama magn og Axel sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa fengið fyrir skartgripina. „Ég held ég hafi fengið 70 grömm og 50 þúsund kall,“ segir Ásgeir um sinn hlut. Restina af peningunum og fíkniefnunum hafi verið eftir hjá Axel.

Ásgeir sagði að Axel Karl hefði sagst hafa látið Mikael hafa skartgripina. Axel kannaðist hins vegar ekki við að hafa fengið fíkniefni eða peninga fyrir skartgripina. „Ég sagði það bara til að losna úr gæslu,“ sagði hann aðspurður af hverju hann hafi sagt það við lögregluna; að þeir hefðu fengið fíkniefni og peninga fyrir skartgripina.

Mikael, sem viðurkenndi fúslega að Axel Karl skuldaði honum peninga fyrir fíkniefni og að hann hafi talið að Axel ætlaði að greiða sér skuldina þegar hann hitti hann og Ásgeir á Reykjanesbraut, sagðist ekki skilja hvernig það ætti að ganga upp að hann hafi átt að fá greidda skuld en látið Axel hafa fíkniefni og peninga í skiptum fyrir skartgripina.

Að lokum spurði saksóknari hvort það hafi aldrei komið til að láta lögregluna vita: „Ekki mitt verk að segja frá,“ svaraði Mikael.

Allir þrír sögðust þeir hafa verið í talsverðri neyslu þegar ránið átti sér stað. Ásgeir var sá eini sem spurður var sérstaklega út í ástand sitt í dag. Hann sagðist hafa verið edrú allt frá því að hann fór á Vog að loknu gæsluvarðhaldinu. Í dag stundaði hann fundi hjá AA-samtökunum. „Ég er giftur með fjögur börn,“ sagði hann um stöðu sína.

Loftbyssan sem Axel skaut af er af þessari tegund.
Skaut í átt að lögreglumönnum

Axel Karl er auk ránsins ákærður fyrir að hafa skotið í átt að lögreglumönnum með loftskammbyssu af gerðinni Gamo PT80 þegar hann var handtekinn í Keflavík, kvöldið eftir að ránið var framið.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarlögreglunnar fóru bara tvö skot úr byssunni, þó að lögreglan beri því við að hann hafi reynt að skjóta átta sinnum úr byssunni. Rannsóknarlögreglumaður sem bar vitni fyrir dómnum sagði að Axel Karl hefði tekið upp byssuna og snúið að lögreglumönnum og skotið úr byssunni áður en hann hljóp af stað og skaut upp í loftið.

Axel Karl sagðist aðeins hafa skotið út í loftið. „ Ég held ég hafi skotið þrisvar sinnum eitthvað út í loftið,“ sagði hann og kannaðist ekki við að hafa beint byssunni í átt að lögreglumönnum. „Ég hljóp áfram og svo skaut ég nokkrum skotum út í loftið og svo hljóp ég aðeins áfram og kastaði byssunni.“ Hann kannaðist ekki við að hafa beint byssunni að lögreglumönnunum.

Axel sagði að byssan væri hættulaus að sýnu mati. „Ég var bara nýbúinn að fá hana,“ sagði hann. „Kannski hálftíma áður en ég var tekinn, þess vegna var ég með hana á mér.“

Kannaðist ekki við annað rán

Auk ránsins í félagi við Ásgeir er Axel einnig ákærður fyrir annað rán í sömu verslun fyrr á árinu. Hann neitar sök í því máli og segir að skartgripir að verðmæti 1,1 milljónar króna, sem fundust á heimili hans í Hafnarfirði, hafi verið greiðsla frá vini sínum fyrir amfetamín.

Tveir rannsóknarlögreglumenn lýstu því að grunur hafi strax kveiknað að sami aðili væri viðriðinn málin tvö. Eigandi Gullsmiðjunnar lýsti því einnig í sínum framburði að hún hafi þekkt annan manninn í ráninu frá því að hann kom inn í verslunina daginn fyrir innbrotið, nokkru fyrr. Hún hafi fengið á tilfinningu að hann hafi staðið að báðum atvikum.

Lögrelgan gerði húsleit á heimili Axel Karls þar sem öskjur með skartgripum sem tengja mátti við Gullsmiðjuna fundust. Glerbrot fundust á sófanum sem Axel Karl var sofandi á þegar lögreglan kom sem og buxum hans. Engar skýringar fengust á því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×