Erlent

Rannsaka dularfullan dauðdaga þýsks sjómanns

Birgir Olgeirsson skrifar
Skúta þýska sjómannsins.
Skúta þýska sjómannsins. Vísir/EPA

Yfirvöld á Filippseyjum rannsaka dularfullan líkfund eftir að skúta þýsks sjómanns fannst á reki um 100 kílómetrum undan strönd bæjarins Barobo í Surigeo del Sur-héraði.

Það voru sjómenn sem fundu skútuna síðastliðinn fimmtudag en í henni var lík eiganda hennar, Manfred Fritz Bajorat, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.  Þar segir að enn sé á huldu hvernig og hvenær dauða hans bar að.

Þýski sjómaðurinn, Manfred Fritz Bajorat Vísir/EPA

Lík hans fannst við talstöðina í skútunni og virtist hann hafa verið að reyna að nota hana áður en hann lést.

Lögreglan segist ekki hafa fundið vísbendingar um átök en hún vinnur nú að því að rekja siglingaleið Bajorats og ræða við þá sem höfðu verið í sambandi við hann.

Réttarmeinafræðingar telja að hann hafi dáið meira en fjórum dögum áður en skútan Sajo fannst.

Fréttaveitan AFP hefur eftir lögregluvarðstjóra Barabo, Mark Navales, að dauði þýska sjómannsins sé enn hulin ráðgáta.

BBC segir þýska sendiráðið í borginni Manila ekki hafa viljað tjá sig um málið að svo stöddu. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira