Enski boltinn

Draumadagar Íslendinganna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. vísir/getty
Árið 2015 var ekki mikið markaár hjá Gylfa Þór Sigurðssyni í búningi Swansea City. Hann skoraði “bara” 5 mörk í 33 deildarleikjum þar af aðeins tvö mörk í 19 leikjum á fyrri hluta núverandi tímabils.

Það tók Gylfa aðeins sex deildarleiki á árinu 2016 að jafna markaskor sitt frá árinu á undan. Gylfi hristi af sér slenið strax í fyrsta leik á móti Manchester United á Old Trafford. Fimmta markið hans á stuttum tíma kom síðan þegar hann skoraði með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu á móti Crystal Palace um síðustu helgi.

Aðeins Gomes haldið hreinu

Heurelho Gomes er einn í flokki meðal þeirra markvarða sem hafa mætt íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2016. Gomes er nefnilega eini af þessum sex markvörðum sem hefur náð að halda hreinu á móti okkar manni.

Gylfi er búinn að skora fimm mörk í fyrstu sex leikjunum og er í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar á nýju ári. Hann er þegar búinn að skora í fimm leikjum á árinu eða jafnmörgum leikjum og Argentínumaðurinn Sergio Agüero sem er markahæstur í deildinni á almanaksárinu 2016.

Frammistaða Gylfa á síðustu 39 dögum er í hópi bestu daga íslenskra leikmanna í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en Fréttablaðið skoðaði fleiri slíka draumadaga hjá íslenskum leikmönnum.



Magnaður mars

Gylfi átti sjálfur frábæra daga vorið 2012 en annars eru það Eiður Smári Guðjohnsen og Heiðar Helguson sem einoka listann ásamt Gylfa.

Gylfi skoraði 6 mörk í 8 leikjum frá febrúar til apríl 2012 en hann var þá valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í marsmánuði. Mörkin hans sex skiptust þá niður á fjóra leiki.

Gylfi á enn nokkuð í land að gera það sem Eiður Smári Guðjohnsen afrekaði með Chelsea-liðinu í desember 2001 til janúar 2002 en Eiður skoraði þá 9 mörk í aðeins 8 leikjum. Eiður skoraði meðal annars í fjórum leikjum í röð en Gylfi gæti jafnað það met með því að skora í næsta leik Swansea.

Heiðar er sá eini sem kemst í þennan hóp með tveimur liðum. Hann skoraði 5 mörk í 5 leikjum með Fulham í ársbyrjun 2006 og skoraði síðan 6 mörk í 7 leikjum með QPR undir lok ársins 2011.

Fjórði maðurinn sem er nálægt því að komast í þennan hóp er Arnar Gunnlaugsson sem skoraði 3 mörk í 4 leikjum með Leicester City undir lok árs 2000.

Gylfi er búinn að skora hjá fimm markvörðum á árinu en hvort Fras­er Forster verði sá sjötti í hópnum kemur í ljós eftir þrjá daga. Forster verður vissulega erfiður viðureignar enda búinn að halda hreinu í síðustu fimm leikjum Southampton sem eru jafnframt einu leikirnir sem kappinn er búinn að spila í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Miðað við það hvernig Gylfi er að spila þessa dagana þá mega Fraser Forster og varnarmenn Southampton passa sig á Liberty leikvanginum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×