Enski boltinn

Mourinho segir vinum sínum að hann verði stjóri Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho og Sir Alex Ferguson.
Jose Mourinho og Sir Alex Ferguson. Vísir/Getty
Ensku blöðin slá því flest upp í morgun að Jose Mourinho hafi sagt vinum sínum og aðstoðarfólki að hann muni í sumar taka við liði Manchester United af Louis van Gaal.

The Daily Mail, Daily Star, Daily Mirror og Daily Telegraph hafa þetta öll frá ónefndum heimildarmanni sem þekkir vel til í herbúðum hins 53 ára gamla Portúgala.

Jose Mourinho var rekinn sem knattspyrnustjóri Chelsea í desember en hann var nánast frá fyrsta degi orðaður við starf Louis van Gaal hjá Manchester United.

Mourinho talaði síðan um það sjálfur í viðtali í síðustu viku að hann væri að snúa aftur í boltann og helst hjá ensku liði.

Louis van Gaal á eftir eitt ár af samningi sínum við Manchester United en hefur þurft að vinna í langan tíma undir endalausum fréttum af endalokum sínum hjá félaginu.

Síðasta útspil Van Gaal var að lýsa því yfir í viðtölum eftir síðasta leik Manchester United að fréttirnar af viðræðum milli Manchester United og Jose Mourinho hefðu verið búnar til af fjölmiðlamönnum.

Margir stuðningsmenn Manchester United eru eflaust orðnir mjög þreyttir á dútl-boltanum undir stjórn Louis van Gaal og fagna þeir hinir sömu öruggum þessum fréttum af Jose Mourinho.

Gengi United-liðsins hefur engu að síður verið betra á síðustu vikum en þegar fjölmiðlar slógu því upp fyrir nánast hvern leik að starf Louis van Gaal væri undir.

Jose Mourinho hefur alltaf náð góðum árangri með lið sín þótt að tími hans hjá félögunum hafi oft endað með skelli. Hann náði vel saman með Sir Alex Ferguson og getur eflaust fengið góð ráð hjá þeim gamla taki hann við á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×