Körfubolti

Neville sleppur við MSN-tríóið í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Suárez og Messi skoruðu sá um markaskorun í fyrri leik Barcelona og Valencia. Hvorugur þeirra verður með í kvöld.
Suárez og Messi skoruðu sá um markaskorun í fyrri leik Barcelona og Valencia. Hvorugur þeirra verður með í kvöld. vísir/getty

MSN-tríóið ógurlega, Lionel Messi, Luis Suárez og Neymar, verður ekki með Barcelona í seinni leiknum gegn Valencia í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar í kvöld.

Börsungar eru nánast komnir í úrslitaleikinn eftir 7-0 stórsigur í fyrri leiknum þar sem Messi skoraði þrennu og Suárez fernu.

Sjá einnig: Gary Neville: Ein versta lífsreynslan á mínum ferli

MSN-tríóið eru ekki einu fastamennirnir sem Luis Enrique hvílir í kvöld. Gerard Pique, Javier Mascherano og Andrés Iniesta verða ekki með en þeir eru á hættusvæði vegna gulra spjalda líkt og Suárez.

Claudio Bravo, Dani Alves, Arda Turan, Sergio Busquets og Jordi Alba eru einnig hvíldir en ungir og efnilegir leikmenn fá tækifæri með Barcelona í kvöld.

Gary Neville, knattspyrnustjóri Valencia, getur því andað örlítið léttar en hann er undir mikilli pressu vegna lélegs árangurs liðsins.

Neville á enn eftir að fagna sigri í níu deildarleikjum sem stjóri Valencia og ofan á það kom svo afhroðið sem liðið beið í fyrri leiknum gegn Barcelona.

Sjá einnig: Fyrrverandi fyrirliði Valencia: Neville verður ekki rekinn

Börsungar munu að öllum líkindum mæta Sevilla í úrslitaleik bikarkeppninnar en Sevilla er í góðri stöðu eftir 0-4 sigur á Celta Vigo í fyrri undanúrslitaleik liðanna. Seinni leikur liðanna fer fram á morgun.

Neville er í vandræðum. vísir/getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira