Handbolti

Þrjú félög eiga bæði karla- og kvennalið í Höllinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gróttufólkið Íris Björk Símonardóttir og Daði Laxdal Gautason verða í Höllinni undir lok mánaðarins.
Gróttufólkið Íris Björk Símonardóttir og Daði Laxdal Gautason verða í Höllinni undir lok mánaðarins. vísir/stefán/vilhelm
Átta-liða úrslitum Coca-Cola bikars kvenna í handbolta lauk í gær þegar Grótta bar sigurorð af Selfossi á útivelli, 22-26.

Gróttukonur eiga því enn möguleika á að verja bikarmeistaratitilinn sem liðið vann í fyrsta sinn í fyrra.

Grótta er einnig komið í undanúrslitin karlamegin en Seltirningar tryggðu sér sæti í Höllinni með öruggum sigri á Fjölni á mánudaginn, 18-29.

Grótta er þó ekki eina félagið sem á bæði karla- og kvennalið í undanúrslitum bikarkeppninnar í ár því Haukar og Stjarnan eiga einnig lið báðum megin.

Haukar eru nú að ná þeim frábæra árangri að vera með bæði karla- og kvennalið sitt á bikarúrslitahelginni þriðja árið í röð.

Það verður því nóg að gera hjá stuðningsmönnum þessara félaga 25. og 26. þessa mánaðar þegar undanúrslitin fara fram í Laugardalshöll. Úrslitaleikirnir eru svo 27. febrúar.

Þessi lið eru komin í undanúrslit kvennamegin:

Grótta

Stjarnan

Haukar

Fylkir

Þessi lið eru komin í undanúrslit karlamegin:

Haukar

Valur

Grótta

Stjarnan



Félög með bæði karla og kvennalið á bikarúrslitahelgi í Laugardalshöllinni

(Frá því að undanúrslitin fóru fyrst í Höllina árið 2013)

2016 - 3 (Haukar, Stjarnan, Grótta)

2015 - 3 (Valur, ÍBV, Haukar)

2014 - 1 (Haukar)

2013 - 0 (-)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×