Enski boltinn

Eigendur Liverpool játuðu sig sigraða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur stuðningsmaður Liverpool.
Ungur stuðningsmaður Liverpool. Vísir/Getty

Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu ekki sigri í síðasta leik liðsins en þeir geta aftur á móti fagnað sigri á móti eigendum sínum.

Eigendur Liverpool hafa nefnilega ákveðið að hætta við hið umdeilda 77 punda miðaverð sem átti að taka upp á næsta tímabili en tilkynningin olli mikilli mótmælaöldu meðal stuðningsmanna félagsins.

Eigendur Liverpool gengu meira að segja enn lengra og báðu stuðningsmenn félagsins einnig afsökunar á þeirri kvöl sem þetta mál hefur valið stuðningsmönnunum.

Þúsundir stuðningsmanna Liverpool gengu út á 77. mínútu í leik Liverpool-liðsins á móti Sunderland á Anfield um síðustu helgi til að mótmæla því að miði í nýju uppgerðu stúkuna átti að kosta 77 pund frá og með næsta tímabili.

Liverpool-liðið var 2-0 yfir í leiknum á móti Sunderland þegar allt þetta fólk yfirgaf Anfield en fékk á sig tvö mörk í lokin og varð að sætta sig við 2-2 jafntefli. 77 punda miði er miði sem kostar rétt rúmlega fjórtán þúsund íslenskar krónur.

Eigendurnir í Fenway Sports Group sögðust hafa fengið og meðtekið skilaboðin frá stuðningsmönnum sínum.

Dýrasti miðinn á Anfield á næsta tímabili mun nú kosta áfram 59 pund eða tæplega 11 þúsund íslenskar krónur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira