Innlent

Ráðherra ferðamála segir að verið sé að vinna að því að tryggja öryggi ferðamanna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar

Ljóst er að bæta þarf verulega úr öryggismálum ferðamanna en fjórir erlendir ferðamenn hafa látist af slysförum hér á landi á síðustu tveimur mánuðum. Ráðherra ferðamála segir að verið sé að vinna að því að tryggja öryggi eins vel og hægt er.

Fréttir af andláti kínversks manns í Reynisfjöru vöktu mikinn óhug í gær, ekki síst vegna þess að ítrekað hefur verið varað við hættu á svæðinu. Undanfarna tvo mánuði hafa fjórir erlendir ferðamenn farist af slysförum hér á landi. Í lok janúar lést kínversk kona eftir köfunarslys í Silfru, í byrjun sama mánaðar fannst breskur ferðamaður látinn á Snæfellsnesi og á annan í jólum lést Japani í umferðarslysi á Suðurlandi.

Helga Árnadóttir. Vísir/GVA

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þau ítrekað hafa kallað eftir aðgerðum stjórnvalda vegna öryggis ferðamanna og stefnumótandi áætlun í þeim efnum.

„Ef við tökum ekki höndum saman og verður ekki ágengt núna þá veit ég ekki hvenær. Við eigum ofboðslega mikið undir. Það eru ofboðslega mikil tækifæri í greininni og þetta er einn af þeim þáttum sem er fylgifiskur, það eru öryggismálin, og við verðum að tryggja þau með sómasamlegum hætti. Við höfum kallað eftir þessu um langa hríð og viljum treysta á að nú komi til aðgerða,“ segir Helga.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, segir að stjórnvöld séu að vinna að því að tryggja öryggi ferðamanna eins vel og hægt er.

„Stjórnstöð ferðamála er samræmingarvettvangur sem hefur skort á í svona málum. Þetta er skýrt dæmi um verkefni hennar, svona mál þar sem fjölmargir aðilar bera ábyrgð með einum eða öðrum hætti og við höfum alveg frá stofnun stjórnstöðvarinnar, 1. nóvember, verið með öryggismálin sérstaklega á oddinum. Það gerir þetta enginn einn, þetta er samstarfsverkefni sem að við erum búin að setja í algeran forgang,“ segir Ragnheiður Elín.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira