Erlent

Námu þyngdarbylgjur frá samruna tveggja svarthola

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vísindamenn hafa í fyrsta sinn greint þyngdarbylgjur í alheiminum og þar með staðfest einn mikil­vægasta þáttinn í hinni almennu afstæðiskenningu Alberts Einstein frá árinu 1916.

„Það hefði verið yndislegt að fylgjast með svipbrigðum Einsteins ef við hefðum getað sagt honum frá þessu,“ sagði eðlisfræðingurinn Rainer­ Weiss, einn vísindamannanna sem kynntu uppgötvunina á blaðamannafundi í Washington í gær.

Það voru vísindamenn við LIGO-rannsóknarstöðina í Bandaríkjunum sem fyrstir allra sáu ótvíræð merki um þyngdarbylgjur.

Heiti stöðvarinnar, LIGO, stendur fyrir Laser Interferometer Gravitat­ional Wave Observatory. Hún var sett upp árið 1992 í þeim tilgangi að greina þyngdarbylgjur og er með greiningarstöðvar á tveimur stöðum í Bandaríkjunum, í Hanford í Washingtonríki og Livingston í Louisiana.

Sjá einnig: Vísindamenn finna þyngdarbylgjur: Markar tímamót í stjarnvísindum

Þrjú þúsund kílómetrar eru á milli greiningarstöðvanna, en fjarlægðin er nauðsynleg til að greina þyngdarbylgjur. Í undirbúningi eru fleiri greiningarstöðvar, ein í Evrópu, önnur í Japan og sú þriðja á Indlandi, sem eiga að gera greininguna nákvæmari.

Þyngdarbylgjunemarnir í Hanford og Livingston voru settir í gang í september síðastliðnum. Stuttu síðar greindust fyrstu merkin um þyngdarbylgjur, sem vísindamennirnir segja að hafi borist frá tveimur svartholum sem snerust hvort um annað og enduðu á því að sogast saman í eitt svarthol.

Þetta er þar með líka í fyrsta sinn sem vísindamenn hafa séð merki um að tvö svarthol sameinist í eitt. Sá atburður, sem stóð yfir aðeins í brot af sekúndu, varð svo öflugur að orkan frá honum varð meiri en orkan af ljósi allra stjarna alheimsins samtímis, á sama tíma og svartholin soguðust saman í eitt.

„Þessi orka sendir frá sér lokakipp af þyngdarbylgjum. Það eru þessar þyngdarbylgjur sem LIGO hefur numið,“ segir í fréttatilkynningu frá LIGO.

Á blaðamannafundinum í Washington í gær spiluðu vísindamennirnir jafnframt hljóðupptöku, þar sem heyra mátti hvernig þyngdarbylgjurnar frá svartholunum sem sameinast hljóma þegar þeim hefur verið breytt í hljóðbylgjur.

„Það fallega við þetta er að við getum ekki bara séð alheiminn heldur getum við heyrt í honum,“ sagði Gaby Gonzalez, eðlisfræðingur og talsmaður LIGO, á blaðamannafundinum í gær.

„Þyngdarbylgjur gera okkur kleift að horfa á heiminn í algerlega nýju ljósi. Möguleikinn á því að greina þær getur valdið byltingu í stjarnvísindum,“ hefur BBC eftir stjarneðlisfræðingnum Stephen Hawking, sem meðal annars er einn helsti höfundur hugmyndarinnar um svarthol. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×