Fótbolti

Eiður Smári genginn í raðir Molde

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári er orðinn leikmaður Molde.
Eiður Smári er orðinn leikmaður Molde. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, er genginn í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Molde. Norska félagið hefur sent fjölmiðlum þar í landi fréttatilkynningu þess efnis.

Hann skrifaði undir eins árs samning við norska félagið, en þetta er í fyrsta sinn sem Eiður Smári spilar á Norðurlöndum utan Íslands.

Eiður Smári spilaði síðast með Shijiazhuang Ever Bright í Kína þar sem hann skoraði eitt mark í fjórtán leikjum, en þar áður var hann á mála hjá Bolton í ensku B-deildinni.

Molde er 14. atvinnumannaliðið sem Eiður Smári spilar fyrir á glæstum ferli, en bestu dagar hans voru með Chelsea og Barcelona þar sem hann varð Englandsmeistari, Spánarmeistari og vann Meistaradeildina með sænska liðinu.

Eiður verður sjöundi Íslendingurinn sem spilar með Molde, en áður hafa þeir Bjarki Gunnlaugsson, Andri Sigþórsson, Ólafur Stígsson, Marel Baldvinsson, Bjarni Þorsteinsson og nú síðast Björn Bergmann Sigurðarson spilað fyrir norska liðið.

Molde er eitt besta lið Noregs en það varð fyrst meistari 2011 undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi framherja Manchester United. Undir stjórn Solskjær varð liðið meistari aftur 2012 og eftir að missa af titlinum 2013 endurheimtaði það hann 2014. Það varð einnig bikarmeistari í fjórða sinn sama ár.

Ole Gunnar Solskjær tók aftur við Molde í vetur eftir misheppnaða dvöl í Wales þar sem hann stýrði Cardiff, en þessi fyrrverandi norski landsliðsframherji er uppalinn hjá Molde og er þar dýrkaður og dáður.

Norska úrvalsdeildin hefst í mars og ætti Eiður því að vera í góðu leikformi þegar strákarnir okkar halda til Frakklands í júní á Evrópumótið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×