Lífið

Ófærð líkt við Wallander og Broadchurch í frönskum fjölmiðlum

Guðrún Ansnes skrifar
Sögupersónan Andri þykir tikka í flest box hinnar norrænu erkitýpu, dálítið þunglyndur og félagsfælinn.
Sögupersónan Andri þykir tikka í flest box hinnar norrænu erkitýpu, dálítið þunglyndur og félagsfælinn.
„Atburðarásin er stundum hæg sem getur dregið úr áhuga áhorfenda en á sama tíma leyfir það áhorfendunum að kynnast persónunum vel og njóta söguþráðarins. Spennan er til staðar,“ segir meðal annars á síðum Le Monde, eins stærsta dagblaðs Frakka, um íslensku sjónvarpsþáttaröðina Ófærð. Segir jafnframt að í þáttunum megi koma auga á leifar Íslendingasagnanna, sem oftar en ekki eru innblásnar af þjóðsögum og yfirnáttúrulegu efni, og þykir Frökkunum það býsna áhugavert.

Þá er nokkuð fjallað um aðalsögupersónuna, lögreglumanninn Andra, sem leikinn er af Ólafi Darra Ólafssyni, og þykir persóna hans minna um margt á aðrar norrænar sögupersónur, þar sem þunglyndi, félagsfælni og einangrun spili stóra rullu. Hann sé þannig nokkurs konar erkitýpa hins norræna lögreglumanns, og er líkt við Kurt Wallander, í Wallander-þáttunum sem notið hafa gífurlegra vinsælda um heim allan.

Voru fyrstu fjórir þættirnir sýndir á franska ríkissjónvarpinu, France 2, á besta tíma á mánudagskvöldið og bárust fregnir þess efnis að alls fimm milljónir Frakka hefðu setið við skjáinn á meðan. Þykir það tíðindum sæta, sér í lagi í ljósi þess að sama kvöld voru tvær nýjar franskar þáttaraðir frumsýndar, og áttu innan­búðarmenn hjá France 2 ekki von á að hin íslenska Ófærð myndi enda í öðru sæti á áhorfslista með átján prósenta hlutdeild. Er töluvert um það rætt í frönskum fjölmiðlum að þar hafi sjónvarpsstöðin sýnt nokkurt hugrekki, og í þetta skiptið hafi það gengið upp.

Franska dagblaðið Le Parisien birti dóm strax daginn eftir sýninguna, þar sem gefnar voru alls fjórar stjörnur af fimm mögulegum, og þáttunum líkt við bresku þættina Broadchurch að gæðum. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×