Enski boltinn

Gömul Newcastle-hetja verður samherji Eggerts hjá Fleetwood

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ameobi skoraði 79 mörk á 14 árum hjá Newcastle.
Ameobi skoraði 79 mörk á 14 árum hjá Newcastle. vísir/getty

Reynsluboltinn Shola Ameobi er genginn í raðir Fleetwood Town sem leikur í C-deildinni á Englandi. Samningur Ameobi gildir út tímabilið.

Ameobi er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle United en hann lék með liðinu í 14 ár (2000-14). Ameobi, sem á 10 landsleiki að baki fyrir Nígeríu, lék alls 397 leiki fyrir Newcastle og skoraði í þeim 79 mörk.

Með Fleetwood leikur Eskfirðingurinn Eggert Gunnþór Jónsson en hann gekk til liðs við enska liðið frá Vestsjælland í Danmörku fyrir tímabilið.

Eggert, sem hefur verið mikið meiddur undanfarin ár, hefur náð sér vel á strik með Fleetwood í vetur og verið fastamaður í liðinu. Eggert hefur komið við sögu í 21 deildarleik á tímabilinu og skorað tvö mörk.

Fleetwood hefur gengið illa í vetur en liðið er í 21. sæti C-deildarinnar og þar með í fallsæti. Eggert og félagar eiga þó tvo leiki til góða á Shrewsbury Town sem er í sætinu fyrir ofan.

Grétar Rafn Steinsson starfar sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira