Sport

Árni Björn kominn í gírinn

Telma Tómasson skrifar
Afreksknapinn Árni Björn Pálsson er farinn að láta til sín taka í Meistaradeildinni í hestaíþróttum, en í gærkvöldi fór hann með sigur af hólmi í keppni í gæðingafimi á tölthryssunni Skímu frá Kvistum. Hlaut hann 8.31 í lokaeinkunn, sem er fádæma góður árangur í þessari keppnisgrein.

Hörkuspenna var til lokamínútunnar í keppninni, enda margar góðar sýningar, fjölbreytileiki mikill og fagmennska í fyrirrúmi.

Jakob Svavar Sigurðsson á Gloríu frá Skúfslæk sýndi frábæra takta og hafnaði í öðru sæti með einkunnina 7.92. Líklega kom ungi nýliðinn Ásmundur Ernir Snorrason sjálfum sér mest á óvart með því að næla sér í bronsið á fallega uppstilltum hesti sínum Speli frá Njarðvík, en þeir félagar hafa náð að stimpla sig inn í Meistaradeildina með stæl, og fóru út með 7.59 í lokaeinkunn í gæðingafiminni.

A-úrslit fóru þannig:

1. Árni Björn Pálsson Skíma frá Kvistum - 8.31

2. Jakob Svavar Sigurðsson Gloría frá Skúfslæk - 7.92

3. Ásmundur Ernir Snorrason Spölur frá Njarðvík - 7.59

4. Hulda Gústafsdóttir Askur frá Laugamýri - 7.45

5. Elin Holst Frami frá Ketilsstöðum Gangmyllan- 7.29

Niðurstöðu úr forkeppni og staða í einstaklings- og liðakeppni má finna á meistaradeild.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×