Enski boltinn

Henry velur fimm leikmenn Leicester í úrval fjögurra efstu liðanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robert Huth, Kante og Mahrez sem allir sjást á myndinni eru í liði Thierry Henry.
Robert Huth, Kante og Mahrez sem allir sjást á myndinni eru í liði Thierry Henry. vísir/getty
Fimm leikmenn Leicester eru í úrvalsliði Thierry Henry, fyrrverandi leikmanns Arsenal og núverandi sparkspekingi Sky Sports, sem hann valdi úr fjórum efstu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Þegar 25 umferðum er lokið í úrvalsdeildinni eru Refirnir afar óvænt á toppnum og með fimm stiga forskot á Tottenham sem er í öðru sæti með 48 stig.

Arsenal er í þriðja sæti með jafn mörg stig og erkifjendur sínir í Norður-Lundúnum og Manchester City, sem tapaði 3-1 fyrir Leicester um síðustu helgi, er í fjórða sætinu með 47 stig.

Henry mátti velja ellefu manna byrjunarlið úr leikmannahópum þessara liða og valdi Petr Cech, markvörð Arsenal, í markið.

Hector Bellerín, bakvörður Arsenal, Robert Huth, miðvörður Leicester, Laurent Koscielny, miðvörður Arsenal, og Christian Füchse, bakvörður Leicester, skipa svo varnarlínuna.

Huth hefur gengið í endurnýjun lífdaga hjá Leicester og skoraði tvívegis gegn City um síðustu helgi. Bellerín hefur neglt hægri bakvarðarstöðuna hjá Arsenal og kaup Leicester á Füchs eru ein þau bestu á tímabilinu.

N'Golo Kante, sem eins og fleiri hefur slegið í gegn hjá Leicester, er varnarsinnaður miðjumaður og með honum á miðjunni eru Riayd Mahrez og Dele Alli hjá Tottenham.

Henry stillir upp í tígulmiðju og er með stoðsendingkóng deildarinnar, Mesut Özil, fremstan á miðjunni fyrir aftan markahrókana Sergio Agüero hjá Manchester City og Jamie Vardy hjá Leicester.

Nánari útskýringar á hverju vali fyrir sig má lesa hér.

Úrvalslið Thierry Henry úr fjórum efstu liðunum.mynd/sky sports



Fleiri fréttir

Sjá meira


×