Innlent

Lögregluyfirvöld leiddu íslensku konuna í gildru

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslensk kona á fimmtugsaldri, sem grunuð er um aðkomu að umfangsmiklu fíkniefnasmygli frá Mexíkó til Íslands með viðkomu í Kanada, var handtekin í Toronto í desember nokkrum dögum fyrir jól. Hún hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan og má reikna með því að hún verði í haldi þar til dómur fellur í málinu. 

Konan mun hafa verið í hlutverki burðardýrs en segja má að lögregluyfirvöld hafi leitt hana í gildru til þess að ná að tengja hana við fíkniefnainnflutninginn. Fór konan utan til Toronto til að sækja golfsett sem sent hafði verið með póstsendingu frá Mexíkó en verið stöðvað í Kanada. Þar var konan handtekin en kylfurnar höfðu verið fylltar af fíkniefnum.

Rannsókn málsins er í höndum kanadísku lögreglunnar en var þó unnin í samstarfi við íslensk yfirvöld á fyrri stigum samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Vísir greindi frá málinu í morgun


Umrædd golfsett á leiðinni frá Íslandi í nóvember.
Ævintýraleg saga

Málið allt hefur yfir sér reyfarakenndan blæ en samkvæmt heimildum Vísis tilkynnti konan þremur kunningjakonum sínum að hún hefði unnið ferð fyrir fjóra til Cancun í Mexíkó. Lúxusferð sem vinkonurnar slógu ekki hendinni á móti. Það sem þær vissu ekki var að verið var að reyna að gera þær að burðardýrum án þeirra vitundar.

Í Leifsstöð afhenti konan kunningjakonum sínum sitt golfsettið hverri og tilkynnti þeim að spilað yrði golf úti í Mexíkó. Konurnar millilentu í Toronto í Kanada áður en til Mexíkó var komið. Þar fór konurnar þrjár að gruna að ekki væri allt með felldu.

Golfsettunum var komið fyrir í afgreiðslu hótelsins í Cancun sem þær skildu ekki alveg. Þangað voru þau sótt af íslenskum manni sem hefur meðal annars hlotið átta ára dóm hér á landi fyrir fíkniefnainnflutning.

Frá flugvellinum í Toronto.Vísir/Getty
Fóru að efast um ferðina

Í framhaldinu fóru konurnar að ganga á vinkonu sína með það í hvaða leik hún hefði unnið miðana en fengu engin skýr svör. Urðu þær óttaslegnar yfir því hvaða aðstæður þær væru búnar að koma sér í og voru farnar frá Cancun, fyrr en áætlað var, eftir fimm daga dvöl. Sú sem situr í gæsluvarðhaldi fylgdi með.

Í Toronto stungu konurnar þrjár vinkonuna svo af og komust í flug heim til Íslands. Vinkonan kom í framhaldinu til Íslands.

Einhverjar vikur liðu þegar upplýsingar bárust lögreglu að golfsett, með kylfum sem höfðu verið fylltar af fíkniefnum, væri á leið í póstsendingu frá Cancun til Íslands með viðkomu í Toronto. Golfsettið átti að senda alla leið en var stöðvað í Kanada.

Fékk konan þær upplýsingar að hún yrði að sækja settið til Kanada. Þegar þangað var komið var hún handtekin. Á svipuðum tíma var annað golfsett, einnig merkt henni, sent svipaða leið og hefur lögregla einnig lagt hald á það. Upplýsingar liggja ekki fyrri um magn fíkniefna en ætla má að það sé töluvert sem koma má fyrir í kylfum tveggja golfsetta.

Samkvæmt heimildum Vísis er reiknað er með því að konan verði í gæsluvarðhaldi ytra þar til að dómur fellur í málinu. Það gæti tekið sinn tíma en til samanburðar hafa meintir fíkniefnainnflytjendur hér á landi, íslenskir sem erlendir, verið í gæsluvarðhaldi í allt að hálft ár áður en málin fara fyrir dóm. 

Uppfært klukkan 21:36

Konan hefur verið ákærð fyrir innflutning á tæplega kílói af kókaíni til Kanada. Hún var handtekin þann 18. desember og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan eða í 55 daga. Hún kemur næst fyrir dómara þann 19. febrúar. Nánar hér.


Tengdar fréttir

Flúðu skelfingu lostnar frá Cancun

Íslensk kona í gæsluvarðhaldi í Kanada. Talin hafa reynt að narra þrjár vinkonur sínar til að gerast burðardýr. Ótrúleg frásögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×