Innlent

Borgarstjóri fundaði með skólastjórnendum Fellaskóla vegna pítsumálsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fundaði í morgun með skólastjórnendum Fellaskóla vegna frétta sem bárust af því í gær að stúlku í skólanum hefði verið meinað að taka þátt í pítsuveislu á öskudag.

Greint er frá fundinum í vikulegu fréttabréfi borgarstjóra en Dagur segir að fundurinn hafi verið góður og að þar hafi komið fram að skólinn hafi ekki litið svo á að þetta væri pítsuveisla vegna öskudags heldur hefðbundinn hádegismatur fyrir börn sem eru í mataráskrift.

„Sum barnanna höfðu þó greinilega væntingar um annað og því varð þessi leiðinlegi árekstur,“ segir í fréttabréfi Dags. Þá tekur hann fram að Fellaskóli hafi staðið sig sérstaklega vel þegar komi að matarmálum, til að mynda með hafragraut á morgnana og ávöxtum yfir daginn, og þá hafi framfarir í námsárangri óvíða verið meira en einmitt þar.

Borgarstjóri segist bera fullt traust til skólastjórnenda til þess að vinna úr málinu þannig að það skilji ekki eftir sig sár. Auk þess hefur hann óskað eftir því að skóla-og frístundasvið fjalli um öskudag og aðra hátíðisdaga í skólunum, þegar hefðbundið skólastarf er gjarnan brotið upp, þannig að hægt verði að læra af atvikinu í Fellaskóla og að línur séu skýrar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira