Innlent

Mikill titringur í þingflokki Samfylkingarinnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Mikill titringur er í þingflokki Samfylkingarinnar eftir að formaðurinn sendi félögum í flokknum bréf í gær þar sem hann tíundaði ýmis mistök flokksins á undanförnum árum. Formaðurinn hafði ekkert samráð við þingflokkinn áður en bréfið var sent út.

Hafi Árni Páll Árnason ætlað sér að hræra upp í flokksfélögum sínum með bréfi sínu í gær hefur honum tekist ætlunarverk sitt. Samfylkingarþingmenn sem fréttastofa hefur rætt við í dag lýsa allir undrun sinni á vinnubrögðum formannsins.

Ekkert samráð hafi verið haft við þingmenn og þeir aðeins fengið bréfið sent til sín klukkstund áður en það var sent til almennra flokksfélaga. Þingmönnum er mismikið niðri fyrir en þeir tala m.a um að hann sé að splundra flokkum þegar þörf sé á að sameina fólk um mikilvæg málefni.

Einn þingmaður sagði bréfið hafa komið eins og kalda vatnsgusu og formaðurinn gengi alltof langt. Í skuldamálum þjóðarinnar hafi til að mynda verið mikill þrýstingur í þingflokknum á þáverandi ráðherra að gera meira fyrir heimilin og spjótunum sérstaklega beint að Árna Páli þegar hann var ráðherra að gera meira.

Ólína Þorvarðardóttir sem hleypti umræðunni um að flýta landsfundi og formannskjöri af stað segir hins vegar gott að formaðurinn tjái sig. Ekki sé hægt að gagnrýna það þegar krafist sé opinnar umræðu. Formaðurinn og aðrir mögulegir frambjóðendur til formanns verði þá núna að svara því hvaða stefnu þeir hafi í miklivægum stefnumálum sem ekki hafi náðst fram.

„Styður formaður flokksins innkölluna aflaheimilda til dæmis? Hver er afstaða þeirra sem gefa kost á sér til forystu í flokknum til stjórnarskrárbreytinganna. Styðja þeir tillögu stjórnlagaráðs í stjórnarskrármálinu,“ spurði Ólína í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Nú fái flokkurinn tækifæri til að gera upp við sig hverjum hann treysti til að leiða þessi mikilvægu mál til lykta. Hún reikni með að mótframboð gegn Árna Páli komi fram á næstu dögum eða örfáu vikum.

„Ég myndi halda að það væri flokknum holt eins og sakir standa að menn reyndu sig í formannskjöri. Aðalatriðið er þó að hver svosem forystan er sem velst til starfa hafi skýrt umboð. Ótvíræðan meirihluta flokksmana á bakvið sig,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×