Innlent

Handtekin með kíló af kókaíni á leiðinni til Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Golfsettin fjögur í Leifsstöð áður en konurnar fjórar héldu í ævintýraferð til Cancun.
Golfsettin fjögur í Leifsstöð áður en konurnar fjórar héldu í ævintýraferð til Cancun.

Rúmlega fertug íslensk kona sem verið hefur í gæsluvarðhaldi í Toronto í Kanada frá 18. desember mun næst koma fyrir dómara þann 19. febrúar. Þetta staðfestir Louise Savard, fjölmiðlafulltrúi hjá konunglegu kanadísku riddaralögreglunni í samtali við Vísi. Hún er ákærð fyrir innflutning á ólöglegum fíkniefnum til Kanada en 974 grömm af kókaíni fundust í fórum hennar.

Vísir greindi frá málinu í morgun sem er hið undarlegasta. Konan plataði þrjár vinkonur sínar í ókeypis ferðalag til Cancun í Mexíkó í nóvember en flest bendir til þess að þær hafi, ómeðvitað, átt að gegna hlutverki burðardýra. Fengu þær óvænt golfsett í hendurnar í Leifsstöð fyrir brottför en engin þeirra spilar golf.

Leið kvennanna lá frá Reykjavík til Toronto og þaðan til Cancun í Mexíkó. Þær fluttu þó aðeins golfsett til Mexíkó en flúðu þaðan logandi hræddar. Vísir

Hittu mann með sex ára fíkniefnadóm á bakinu
Í Mexíkó kveiktu vinkonurnar á perunni að ekki væri allt með felldu. Hittu þær meðal annars fyrir íslenska mann, búsettan í Mexíkó, sem sýndi golfsettunum áhuga. Sá hefur hlotið átta ára dóm hér á landi fyrir brot á fíkniefnalögum. Konurnar héldu óttaslegnar heim til Íslands fyrr en áætlað var.

Nokkrum vikum síðar fékk konan ábendingu um að póstsending til hennar til Íslands, golfsett, hefði verið stöðvuð í Kanada. Hélt hún til Kanada til að veita sækja golfsettið. Eftir að hafa sótt golfsettið og á leiðinni í flug aftur til Íslands var hún handtekin.

Lagt var hald á aðra póstsendingu í hennar nafni en aftur var um golfsett að ræða. Alls fundust 974 grömm í golfkylfunum.

Frí skemmtireisa til Cancun breyttist í martraðarkennda skelfingu, þegar konurnar voru orðnar sannfærðar um að nota ætti þær sem burðardýr. Vísir

Langt varðhald framundan
Konan hefur verið í gæsluvarðhaldi í 55 daga og kemur næst fyrir dómara á föstudaginn í næstu viku.

Málið var í fyrstu unnið í samvinnu lögreglunnar í Kanada og Íslandi. Kanadíska lögreglan fer nú með rannsókn málsins.

Reikna má með því að meðferð málsins ytra geti tekið fleiri vikur áður en dómur fellur í málinu.


Tengdar fréttir

Flúðu skelfingu lostnar frá Cancun

Íslensk kona í gæsluvarðhaldi í Kanada. Talin hafa reynt að narra þrjár vinkonur sínar til að gerast burðardýr. Ótrúleg frásögn.
Fleiri fréttir

Sjá meira