Innlent

Skallaði dyravörð á árshátíð

Birgir Olgeirsson skrifar
Alls voru þrír ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifa vímuefna.
Alls voru þrír ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifa vímuefna. Vísir/Stefán

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Á öðrum tímanum í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að hóteli í austurborginni þar sem árshátíð fór fram. Hafði ölvaður maður skallað dyravörð í andlitið. Var maðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. 

Um sama leyti var tilkynnt um umferðaróhapp á Fífuhvammsvegi í Kópavogi. Þar hafði bifreið verið ekið á ungan mann sem var þar á göngu ásamt fleirum. Ungi maðurinn fann fyrir eymslum en vildi ekki fara með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ungi maðurinn ætli að fara þangað síðar. 

Klukkan ellefu í gærkvöldi hafði lögreglan afskipti af ungu fólki við kirkjugarða Hafnarfjarðar vegna neyslu fíkniefna. Var einn kærður fyrir vörslu fíkniefna.

Alls voru þrír ökumenn stöðvaðir í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifa vímuefna.  
Fleiri fréttir

Sjá meira