Innlent

Varað við stormi: Rigning og rok í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er spáð rigningu og roki á höfuðborgarsvæðinu á morgun.
Það er spáð rigningu og roki á höfuðborgarsvæðinu á morgun. vísir/ernir
Veðurstofan varar við suðaustan hvassviðri eða stormi á morgun með rigningu eða slyddu og hálku á vegum. Þá er spáð vestan stormi eða roki á öllu landinu á þriðjudagsmorgun.

Upp úr miðnætti í kvöld verður suðaustan 10 til 18 metrar á sekúndu með snjókomu eða slyddu suðvestan og vestan til en í fyrramálið verður vindur 15-23 metrar á sekúndu og rigning eða slydda. Seint á morgun lægir mikið til vestanlands með austan 8 til 13 metrum á sekúndu um kvöldið.

Á austanverðu landinu gengur hann í suðaustan 13 til 20 metra á sekúndu með morgninum, en hvassari á stöku stað. Þá verður snjókoma eða slydda með köflum norðaustan og austanlands en mikil rigning suðaustan til. Þá hlýnar í veðri og verður frostlaust á landinu eftir hádegi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Vestan og suðvestan 20-25 m/s og slydda eða éljagangur um morguninn, en 25-30 á annesjum N- og A-til. Suðvestan 13-20 og él síðdegis, hvassast NV-til, en léttir til A-lands. Kólnandi, frost 0 til 5 stig síðdegis.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt, 8-13 m/s og víða él, en norðlægari síðdegis. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum.

Á fimmtudag:

Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en vaxandi suðaustanátt síðdegis og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið. Fremur svalt veður.

Á föstudag:

Ákveðin austanátt með slyddu eða snjókomu, en síðar éljum. Hiti nálægt frostmarki.

Á laugardag og sunnudag:

Norðaustan átt og snjókoma eða él, en úrkomulítið SV-til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×