Körfubolti

James tók metið af Kobe í stjörnuleiknum í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var létt yfir mönnum í Toronto í nótt.
Það var létt yfir mönnum í Toronto í nótt. vísir/getty

Kobe Bryant lék sinn 18. og síðasta stjörnuleik í nótt þegar lið Vesturdeildarinnar bar sigurorð af liði Austurdeildarinnar, 196-173, í Toronto.

Bryant, sem leggur skóna á hilluna eftir tímabilið, var með 10 stig í leiknum í nótt og skoraði því alls 290 stig í stjörnuleikjum á ferlinum.

Bryant átti metið yfir flest stig í stjörnuleikjum en LeBron James hirti það af honum með því að skora 13 stig í leiknum í nótt.

James er nú búinn að skora 291 stig í stjörnuleikjum, einu meira en Bryant. Þriðji á blaði er svo átrúnaðargoð Bryants, sjálfur Michael Jordan, en hann skoraði 262 stig í stjörnuleikjum á sínum tíma.

Kevin Durant, leikmaður Oklahoma City Thunder, nálgast efstu menn en hann er kominn upp í 13. sætið á stigalistanum í stjörnuleikjum.

Durant skoraði 23 stig í leiknum í nótt og hefur því gert 179 stig í stjörnuleikjum á ferlinum, jafn mörg og Boston-goðsögnin John Havlicek gerði á sínum tíma. Durant er bara 27 ára og ætti því að geta komist enn ofar á listann á næstu árum.

Þótt ungur sé á Durant þó metið yfir flest stig að meðaltali í leik í stjörnuleikjum, eða 25,6 stig.

Flest stig í stjörnuleikjum NBA:
1. LeBron James - 291
2. Kobe Bryant - 290
3. Michael Jordan - 262
4. Kareem Abdul-Jabbar - 251
5. Oscar Robertson - 246
6. Bob Pettit - 224
7. Julius Erving - 221
8. Elgin Baylor - 218
9. Shaquille O'Neal - 202
10. Wilt Chamberlain - 191

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira