Enski boltinn

Graham Poll: Clattenburg giskaði þegar hann dæmdi vítið á Man City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
City-menn voru ekki sáttir með Clattenburg í leiknum gegn Tottenham í gær.
City-menn voru ekki sáttir með Clattenburg í leiknum gegn Tottenham í gær. vísir/getty
Graham Poll, fyrrum knattspyrnudómari, segir að Mark Clattenburg hafi gert stór mistök þegar hann dæmdi vítaspyrnu á Raheem Sterling í leik Manchester City og Tottenham á Etihad Stadium í gær.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 53. mínútu fékk Tottenham umdeilda vítaspyrnu eftir að fyrirgjöf Dannys Rose fór í Sterling.

Clattenburg mat það sem svo að Sterling hefði fengið boltann í hendina sem var ekki að sjá í endursýningu. Harry Kane skoraði úr vítaspyrnunni og kom Tottenham yfir. Varamaðurinn Kelechi Iheanacho jafnaði metin á 74. mínútu en níu mínútum síðar tryggði Christian Eriksen tryggði Spurs sigurinn.

Poll, sem var lengi í fremstu röð enskra dómara, segir að Clattenburg hafi einfaldlega giskað á að boltinn hafi farið í höndina á Sterling í leiknum í gær.

„Mark Clattenburg er besti dómarinn í ensku úrvalsdeildinni en ég er hræddur um að hann hafi brotið hina gullnu reglu í dómgæslu þegar hann dæmdi víti á Man City,“ segir Poll í pistli sínum fyrir Daily Mail.

„Gullna reglan er sú að stundum gerast atvik sem þú sérð ekki. Svoleiðis er það bara. En getur ekki, MÁTT ekki, dæma á eitthvað sem þú heldur að hafi gerst.

„Í endursýningu sást að boltinn fór einfaldlega í bakið á Sterling. Clattenburg hlýtur að hafa giskað á þetta. Tottenham gæti unnið deildina vegna dómaramistaka,“ bætti Poll við og dró ekkert úr dramatíkinni.

Eftir úrslit gærdagsins er Tottenham aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Leicester City á meðan City er sex stigum frá toppsætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×