Innlent

Sverrir telur fjármögnunarhugmyndir Salmanns fráleitar

Jakob Bjarnar skrifar
Sverrir telur útreikninga Salmanns furðulega.
Sverrir telur útreikninga Salmanns furðulega.

Sverrir Agnarsson, fráfarandi formaður í Félagi múslima á Íslandi, telur áætlanir Salmanns Tamimi, um hvernig standa skuli að fjármögnun mosku í Sogamýrinni, fráleitar. Hann segir að miðað við orð Salmanns standi til að 150 einstaklingar leggi til fjármagn til byggingarinnar. Þetta telur Sverrir langsótt markmið, svo ekki sé meira sagt.

Sjá frétt Vísis frá í dag um það hvernig Salmann hyggst standa að fjármögnun byggingarinnar.

150 einstaklingum ætlað að standa undir fjármögnun
Sverrir varð undir á síðasta aðalfundi Félags muslima á Íslandi, í formannskjöri sem fram fór í október í fyrra. Salmann varð ofan á og sakaði Sverrir hann í kjölfarið um að hafa komið óheiðarlega fram. „Ég tók afstöðu með íslensku konunum í félaginu sem vildu burt með ljóta ókláraða, nú í tíu ár, búrið sem konurnar er látar vera í við bænahald. [...] Þetta fór illa í karlfauskanna sem sendu kerlingarnar út á völlinn að mótmæla svona ósvinnu. Þetta var núningur menningarfasisma og heilbrigðs Islam ómenguðu af karlrembu,“ sagði Sverrir við það tækifæri.

Sverrir hefur nú tjáð sig um fjármögnunaráformin inná síðu Facebookhóps félagsins, í tilefni þess að Salmann segi félaga 500 og því ekkert mál að fá 1-2 hundruð milljónir frá þeim.

„Það er allt í lagi að segja eins og er - það eru ekki 500 meðlimir í Félagi múslíma á Íslandi heldur 450 síðast þegar ég tékkaði í nóvember. Það voru þó nokkrir sem gengu úr félaginu yfir í Menningarmiðstöðina þegar Askari hætti þar. Af þessum 450 eru 150 börn 15 ára og yngri og þá eru 300 fullorðnir eftir.“

6-7 milljónir á hverja fjölskyldu
Af þeim eru að minnsta kosti 150 fátækir stúdentar og einstaklingar og allmargir allmargir flóttamenn með lítil fjárráð, að sögn Sverris.

„Þá eru eftir í mesta lagi 150 einstaklingar sem þurfa að leggja fram fjármagnið til moskubyggingarinnar. Af þeim eru margir giftir innbyrðis, nokkrir eru Íslendingar sem hafa skráð sig af einhverjum ástæðum og margir eru þar bara af þeir hafa verið beðnir um að skrá sig af félögum en hafa engan sérstakan áhuga á bænahaldi. Niðurstaðan er að það eru um 50-70 fjölskyldur sem er ætlað að fjármagna mosku upp 400.000.000 sem eru um 6-7 milljónir á hverja þeirra ef allar eru með.“

Salmann er brattur en Sverrir telur litla innistæðu fyrir bjartsýni leiðtoga Félags íslenskra múslima.

Sverrir segir að fyrir sér hafi alltaf legið ljóst fyrir að við þurfum að leita að fjármagni erlendis til að eignast þessa mosku eða eru þessir útreikningar alveg út í hött. Salmann hins vegar stefnir að því að fjársöfnun verði að mestu leyti innanlands en hefur þó skrifað félögum í Danmörku og Svíþjóð með ósk um stuðning. „En, við tökum ekki við neinu frá neinni ríkisstjórn. Það er alveg á hreinu,“ segir Salmann.

Moska þegar í Reykjavík
Svo er hitt sem verður til að rugla þessa umræðu það að á Íslandi eru tvö virk félög múslima á Íslandi. Og það er nú þegar starfrækt moska á Íslandi, í Ýmishúsinu þar sem Menningarfélag múslima er með aðstöðu.

Erfitt reyndist að fá botn í hvert það fé fór sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson greindi frá að hefði verið lagt fram og hafði eftir sendiherra Saudi Arabíu á Íslandi. Sá styrkur var sagður frá Saudi Arabiu til moskubyggingar og átti hann að nema 130 milljónum. Vísir hefur ítrekað sent fyrirspurnir sem snúa að því máli til sendiráðsins, sem staðsett er í Svíþjóð, en án árangurs. Stofnun múslima á Íslandi, sem á og rekur Ýmishúsið, hefur síðan sagst hafa fengið styrkinn frá Sádi-Arabíu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira