Fótbolti

Cahill: Verðum að sanna okkur á stóra sviðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Cahill.
Gary Cahill. vísir/getty
Englandsmeistarar Chelsea mæta Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta annað kvöld.

Leikurinn fer fram í París en þessi sömu lið mættust á sama stað í keppninni í fyrra og þá hafði PSG betur. Bæði urðu þau landsmeistarar í sínum deildum í fyrra en þau eru ekki bæði í sömu stöðu að þessu sinni.

PSG er með 24 stiga forskot á toppnum í Frakklandi og verður í Meistaradeildinni næsta vetur. Það er bókað. Chelsea aftur á móti verður að vinna Meistaradeildina í ár til að vera með næsta vetur þar sem staða liðsins í ensku úrvalsdeildinni er svo slæm.

„Við verðum að sanna okkur á stóra sviðinu og sýan að við erum með góða leikmenn og gott lið,“ sagði Gary Cahill, miðvörður Chelsea, á blaðamannafundi í dag.

„Það tala allir um að þeir vilji spila í Meistaradeildinni. Við komumst í gegnum riðlakeppnina og mætum núna PSG. Þetta er risaleikur.“

Chelsea vann Meistaradeildina nokkuð óvænt árið 2012 þegar Roberto Di Matteo stýrði liðinu sem bráðabirgðastjóri en annar slíkur, Guus Hiddink, er við stjórnvölinn þessa dagana.

„Við náðum að vinna Meistaradeildina einu sinni og það er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Þetta er stærsta keppnin með stærstu leikjunum og við viljum fara alla leið,“ sagði Gary Cahill.


Tengdar fréttir

Verratti framlengir við PSG

Ítalski miðjumaðurinn Marco Verratti hefur framlengt samning sinn við Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain um eitt ár. Nýi samningurinn gildir til ársins 2020.

Hefndarhugur í Zlatan

Markvörður Chelsea óttast að Svíinn Zlatan Ibrahimovic vilji bæta fyrir rauða spjaldið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×