Erlent

Bandaríkin heimila verksmiðju á Kúbu

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrirtækið, sem er í eigu tveggja manna frá Alabama, hyggst smíða um þúsund dráttarvélar á ári.
Fyrirtækið, sem er í eigu tveggja manna frá Alabama, hyggst smíða um þúsund dráttarvélar á ári. Vísir/Getty

Bandarísk stjórnvöld hafa í fyrsta sinn í rúma hálfa öld gefið grænt ljós á byggingu bandarískrar verksmiðju á Kúbu.

Fyrirtækið, sem er í eigu tveggja manna frá Alabama, hyggst smíða um þúsund dráttarvélar á ári.

Bandaríska fjármálaráðuneytið tilkynnti þeim Horace Clemmons og Saul Berenthal að Bandaríkjastjórn hafi heimilað þeim að hefja starfsemi á Kúbu.

Þeir Clemmons og Berenthal eru menntaðir tölvunarfræðingar sem stefna að því að smíða um þúsund smærri dráttarvélar á ári til að selja bændum á eyjunni.

Vonast er til að verksmiðjan opni í upphafi næsta árs á sérstöku landsvæði sem Kúbustjórn hefur tekið frá til að lokka til sín erlenda fjárfesta.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Kúbu hafa síðustu mánuði unnið að bættum samskiptum ríkjanna. Þannig opnuðu ríkin sendiráð í höfuðborgunum Washington DC og Havana síðasta sumar en það var álitið eitt mikilvægasta skrefið í átt að bættum samskiptum ríkjanna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira