Íslenski boltinn

Gary Martin samdi við Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin spilar fyrir sitt þriðja félag á Íslandi.
Gary Martin spilar fyrir sitt þriðja félag á Íslandi. vísir/stefán
Enski framherjinn Gary Martin er genginn í raðir Víkings, en hann skrifaði undir samning við Fossvogsfélagið í kvöld, samkvæmt heimildum Vísis.

Gary kemur til Víkings frá KR þar sem hann hefur spilað frá miðju sumri 2012, en fyrst kom Englendingurinn til Íslands til að spila með ÍA fyrir sex árum síðan.

Þessi 25 ára gamli framherji skoraði þrettán mörk fyrir KR í Pepsi-deildinni 2013 og fékk bronsskóinn og svo gullskóinn ári síðar þegar hann skoraði jafn mörg mörk. Hann skoraði fimm mörk í 15 leikjum á síðustu leiktíð.

Gary hefur skorað 38 mörk í 80 leikjum í efstu deild á Íslandi fyrir ÍA og KR og verður mikill hvalreki fyrir Víkingsliðið sem hafnaði í níunda sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Framherjinn var nokkuð eftirsóttur, en Baldur Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar KR, staðfesti við Fótbolti.net í dag að nokkur tilboð hefðu borist í Gary.

Englendingurinn ræddi við Breiðablik í gær, samkvæmt heimildum Vísis, og Víkinga svo í morgun og ákvað framherjinn á endanum að semja við Fossvogsfélagið.

KR fer í æfingaferð til Flórída á morgun en verði gengið nógu hratt frá félagaskiptum gæti Gary verið í liði Víkings á móti HK í Lengjubikarnum annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×