Íslenski boltinn

Gary Martin: Get ekki lýst áhuganum sem Víkingur sýndi mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Gary Martin skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við Víking og spilar því með sínu þriðja félagi hér á Íslandi í efstu deild næsta sumar.

Gary kom til Íslands 2010 og gekk þá í raðir ÍA en þaðan fór hann til KR um mitt sumar 2012. Hann skoraði þrettán mörk í Pepsi-deildinni 2013 og aftur 2014 þegar hann vann gullskóinn.

Enski framherjinn átti í stormasömu sambandi við fyrrverandi þjálfara sinn Bjarna Guðjónsson á síðustu leiktíð en segir samband þeirra mun betra núna.

„Af hverju ekki?“ svaraði Gary Martin aðspurður í viðtali við Vísi í kvöld hvers vegna hann færði sig um set? „Stundum í fótboltanum er kominn tími til að færa sig um set og sá tími var kominn hjá mér. Ég er enn bara 25 ára þannig ég hef margt að bjóða.“

Gary Martin skiptir hvítu röndinni út fyrir rauða. vísir/stefán

Kominn til að hjálpa
KR hefur verið í baráttu um íslandsmeistaratitilinn undanfarin ár en Víkingur hafnaði í níunda sæti á síðustu leiktíð eftir að vera í fallbaráttu nær allt mótið.

„Ég vildi koma til Víkings því ég vill hjálpa þessu félagi. Það er auðveldara að vera hjá liðum við toppinn og alltaf með góða leikmenn í kringum sig að berjast um titilinn,“ sagði Gary. „Stundum vill maður gefa eitthvað á móti og nú er ég kominn í frábært lið sem er virkilega efnilegt.“

KR tók nokkrum tilboðum í enska framherjann og hafði Víkingur á endanum betur í baráttu við Breiðablik sem ræddi við Gary í gær. „Ég get ekki lýst áhuganum sem Víkingur sýndi mér og hversu hart félagið sóttist eftir mér. Það er gott að einhver vill fá þig og því er ég svo svakalega ánægður með að vera kominn hingað,“ sagði Gary, en hvað vill hann afreka í Fossvoginum?

„Ég er kominn hingað til að hjálpa. Róm var ekki byggð á einum degi og Manchester City varð ekki meistari á fyrsta ári. Ég er ekki að segja Víkingur sé Manchester City samt,“ sagði hann og brosti.

„Ég er spenntur því þetta er mikil áskorun. Hér getum við byggt eitthvað. Ég sé bjarta framtíð hjá Víkingi og þess vegna gekk ég í raðir félagsins. Ég talaði við nokkra um félagið og allir höfðu fallega hluti að segja. Á endanum var þetta auðveld ákvörðun fyrir mig.“

Bjarni Guðjónsson og Gary Martin áttu ekki samleið í fyrra. vísir/vilhelm

Ekki ýtt úr KR
Gary segir það sína ákvörðun að fara úr Vesturbænum og samband hans við Bjarna Guðjónsson hafi verið gott undir restina.

„Hann óskaði mér alls hins besta. Samband okkar var slæmt í fyrra en það var ekki svo slæmt í ár. Stjórnin samþykkti samt tilboð sem var kannski merki þess að KR vildi ekki halda mér,“ sagði Gary.

„Fólk þarf að átta sig á því að mér var ekki ýtt út úr KR. Ég ákvað að fara. KR vildi halda mér en mér fannst kominn tími á að fara.“

Gary fékk minna að spila en hann vildi á síðasta sumri en fannst honum hann ekki metinn að verðleikum eftir að skoar 26 mörk samtals árin 2013 og 2014?

„Þegar þú orðar það þannig, já, kannski var ég ekki metinn að verðleikum. Ég missi samt ekki svefn yfir því. Við mætum KR í fyrsta leik í sumar þannig við sjáum bara til hvernig fer þar,“ sagði Gary Martin.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Gary Martin samdi við Víking

Enski framherjinn færir sig úr Vesturbænum í Fossvoginn og spilar með Víkingum í Pepsi-deildinni næsta sumar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira