Innlent

Össur þykir orðinn ansi forsetalegur

Birgir Olgeirsson skrifar
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Fréttablaðið/Vilhelm

Fréttastofan hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að Össur Skarphéðinsson alþingismaður og fyrrverandi ráðherra hafi leitað eftir stuðningi í embætti forseta Íslands hjá fólki þvert á flokka og í atvinnulífinu.

Vitað er að Össur hefur einnig fengið ráðgjöf hvar hann standi sterkur fyrir og hvar ekki þegar framboð er annars vegar. Sjálfur hefur Össur ekki viljað staðfesta fréttir um framboð og kom af fjöllum þegar fréttastofa hafði samband við hann síðastliðinn laugardag.

Þykir þingmaðurinn vera orðinn ansi forsetalegur á Facebook-síðu sinni. Til að mynda birtir hann í dag myndir af sér við opnun nýs Ali Baba-veitingastaðar í Spönginni í Grafarvogi um liðna helgi, en þar þjónaði Össur gestum fyrir hönd eiganda staðarins. „Eins og þjónandi forystu sæmir,“ skrifar Össur.


Við dr. Árný tókum þátt í að opna nýjan Ali Baba stað í Spönginni um helgina með Yaman Brikhan, gömlum kunningja sem...

Posted by Össur Skarphéðinsson on Monday, February 15, 2016

Þá hefur hann birt myndir af sér við opnum listsýningar og frá afmælistónleikum karlakórs Kjalnesinga.

Össur er fæddur i Reykjavík 19. júní 1953 og verður því 63 ára þegar gengið verður til kosninga. Hann gekk í MR, síðar Háskóla Íslands og lauk doktorspróf í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein frá Háskólanum í East Anglia, Englandi, 1983.

Stjórnmál hefur verið aðalstarf Össurar frá 1991 en hann hefur setið á þingi fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna og gegnt embætti umhverfis-, iðnaðar- og utanríkisráðherra. Hann var fyrsti formaður Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins í maí 2000 til 2005. Hann hefur einnig komið að fjölmiðlum enda var hann blaðamaður og ritstjóri Þjóðviljans og síðar ritstjóri DV.

Össur er kvæntur Árnýju Erlu Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingi og deildarstjóra hjá Raunvísindastofnun HÍ og eiga þau tvær dætur.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira