Innlent

Vinnustöðvun í Straumsvík: "Mikill kurr og mikil reiði í starfsmönnum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, segir að vinnustöðvun félagsmanna sem starfa á hafnarsvæði álversins í Straumsvík sé eitt skrefið af mörgum í þeirri vegferð að knýja fram nýjan kjarasamning. Verði af vinnustöðvuninni mun útflutningur á áli frá Straumsvík stöðvast frá byrjun dags 24. febrúar.

Ekkert hefur þokast í samkomulagsátt í kjaradeilu starfsmanna við Rio Tinto Alcan og yfirlýsing forstjóra móðurfélags álversins um að laun hjá Rio Tinto skyldu fryst út þetta ári bætti ekki stöðuna. Kolbeinn segir starfsmenn enn bíða eftir svörum hvaða áhrif sú ákvörðun mun hafa hér á landi og segir það óásættanlegt að starfsmenn búi við slíka óvissu.

„Mér finnst þetta ekki vera okkur bjóðandi. Við stilltum dæminu einfaldlega upp þannig að við vildum fara inn í sama launaumhverfi og allir aðrir hér í samfélaginu og mér finnst að Samtök atvinnulífsins og Rio Tinto ættu nú að geta gengið að því. Þetta væri annað ef við værum að fara fram með meiri kröfur,“ segir Kolbeinn í samtali við fréttastofu.

Hann bendir á að starfsmennirnir hafi seinast fengið launahækkun um áramótin 2013-2014 svo þeir séu orðnir langeygir eftir bættum kjörum. Aðspurður hvort hann finni fyrir gremju á meðal starfsfólks segir Kolbeinn:

„Já, mikill kurr og mikil reiði í starfsmönnum, sérstaklega vegna þess hvernig fyrirtækið hefur hagað sér gagnvart því að semja ekki um sambærileg laun og menn eru með hérna í samfélaginu.“


Tengdar fréttir

Fjöldi reyndra starfsmanna hafa sagt upp í álverinu

Fjöldi starfsmanna með áralanga starfsreynslu í álverinu í Straumsvík hafa sagt upp störfum þar undanfarnar vikur. Talsmaður starfsfólks segir það langþreytt á margra mánaða kjarabáráttu og vill að verkalýðsfélögin setji aukinn þunga í að leysa málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×