Fótbolti

Bruce Springsteen kemur í veg fyrir að Barcelona geti unnið titil á Bernabeu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruce Springsteen. Luis Suarez, Neymar og Lionel Messi.
Bruce Springsteen. Luis Suarez, Neymar og Lionel Messi. Vísir/Getty
Barcelona og Sevilla mætast í bikarúrslitaleiknum á Spáni í ár og þau vildu bæði að úrslitaleikinn færi fram á Santiago Bernabeu, heimavelli Real Madrid. Af því verður þó ekki.

Real Madrid var ekki búið að gefa grænt ljós á það að hýsa úrslitaleikinn á Santiago Bernabeu og nú er orðið ljóst að leikvangurinn er upptekinn laugardaginn 21. maí næstkomandi.

Forráðamenn Real Madrid voru ekki alltof spenntir fyrir því að Barcelona gæti unnið titil á þerra velli og á endanum var það bandarískur tónlistamaður sem kom þeim til bjargar.

Bruce Springsteen mun halda tónleika á Santiago Bernabeu þetta kvöld og því verður bikarúrslitaleikurinn að fara fram annarsstaðar.

Real Madrid reddaði sér í fyrra með því að segja að völlurinn væri lokaður vegna viðgerða. Nú gátu þeir nýtt sér tónleika Bruce Springsteen til að koma í veg fyrir að erkifjendurnir gætu unnið titil á þeirra heimavelli.

Barcelona hefur náð að vinna bikarinn á Santiago Bernabeu en það var árið 1997 þegar Barca vann 3-2 sigur á Real Betis í framlengdum úrslitaleik. Luís Figo skoraði tvö mörk í leiknum og þar á meðal var sigurmarkið.

Bikarúrslitaleikurinn á Spáni á sér ekki neinn einn samastað heldur flakkar hann á milli flottustu leikvanganna á Spáni.

Barcelona fékk að vera á heimavelli fyrir ári síðan þegar liðið vann 3-1 sigur á Athletic Bilbao. Árið á undan vann Real Madrid 2-1 sigur á Barcelona á Mestalla í Valencia.

Nú fer úrslitaleikurinn væntanlega fram á Vicente Calderon, heimavelli Atletico Madrid, en liðið fá þá mun minna í kassann því hann tekur 30 þúsund færri áhorfendur en Santiago Bernabeu.

Síðasti bikarúrslitaleikurinn til að fara fram á Vicente Calderon var leikur Barcelona og Athletic Bilbao árið 2012 en Börsungar unnu hann 3-0 með tveimur mörkum frá Pedro og einu marki frá Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×