Menning

Efnið þarf að brenna á manni

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Þóra Karítas segir frá tilurð bókar sinnar Mörk, saga mömmu í Hannesarholti í kvöld.
Þóra Karítas segir frá tilurð bókar sinnar Mörk, saga mömmu í Hannesarholti í kvöld. mynd/ernir
Leikkonan Þóra Karítas Árnadóttir segir frá tilurð fyrstu bókar sinnar: Mörk – saga mömmu, í Hannesarholti í kvöld. Bókin kom út í apríl 2015 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016. Fyrirlesturinn ber heitið Blundar í þér bók.

„Þegar mamma opnaði sig fyrir mér fyrir um áratug, um þetta stærsta tráma í hennar lífi fór þessi bók í rauninni af stað. En hún lá í dvala, þar til hún varð tímabær,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir um bók sína Mörk – saga mömmu, sem kom út síðastliðið vor. Bókin fjallar um æsku móður Þóru og ofbeldi sem hún var beitt innan fjölskyldunnar. Bókin var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í ár og í kvöld ætlar Þóra að segja frá ferlinu á bak við bókina í Hannesar­holti.

Aðspurð hvort hugrekki hafi þurft til að segja þessa viðkvæmu sögu segir hún að það hafi einfaldlega verið tímabært. „Kannski var það líka af nauðsyn. Ég fór á fyrir­lestur rithöfundarins Amy Tan sem skrifaði The Joy Luck Club, þar sem hún talaði um þörfina fyrir að skrifa og pressuna sem verður inni í okkur, fólk verði hreinlega að skrifa, annars springur það. Ég gat tengt við það,“ segir Þóra.

Krefjandi ferli

Fyrirlesturinn ber heitið Blundar í þér bók? og er öllum opinn, hvort sem fólk hefur hug á að skrifa sjálft eða einfaldlega kynnast sögunni á bak við bókina.

„Mér finnst sjálfri bæði gaman og gagnlegt að hlusta á höfunda tala um verk sín þegar ég sjálf er að skrifa og þess vegna köllum við þetta „Blundar í þér bók?“. Skrifferli höfunda fer ekki fram á einn máta og hver og einn þarf að finna sína leið, hvernig sem hún lítur út. Ég fór hálfgerða Krísuvíkurleið að því að finna út hvernig ég ætlaði að setja söguna fram að lokum. Það er gaman að geta sagt frá þessu ferðalagi,“ segir Þóra.

„Þetta er heimildarsaga og ég grúskaði í ýmsu til að komast nær Reykjavík eins og hún var fyrir 1952. Eins er þetta fjölskyldusaga og hef ég talað við fjölskyldumeðlimi um hvernig allt leit út inni í húsinu þar sem þessir atburðir gerðust. Frá því ég byrjaði að skrifa fyrsta stafinn og þar til bókin kom út liðu tvö ár. Eitt er að ná efninu út úr sjálfum sér og svo annað að fara yfir og ritstýra því þar til maður er sáttur við verkið. Það kom mér á óvart hvað þetta eru mörg lög og mismunandi tímabil.“

Verður til önnur bók?

„Ég held að það sé sniðugt að leyfa undirmeðvitundinni og tímanum að vinna með sér, svo maður sjái hvað það er sem hættir ekki að ásækja mann. Maður sest ekki niður einn daginn og skrifar bara um „eitthvað“. Efnið þarf að ásækja mann og brenna á manni. Skrifin taka yfir líf manns þann tíma sem maður er að sinna þessu. Þorvaldur Þorsteins sagði einhvern tíma „taktu eftir því sem þú tekur eftir“.“

Mátaði skáldanöfn

Þóra segist alltaf hafa ætlað sér að verða rithöfundur. Leiklistarnámið hafi verið hluti af því að þroska sköpunargáfuna.

„Það er engin ein leið rétt til að vera skapandi, maður gerir bara það sem maður þarf til að opna sig. Ég samdi ljóð þegar ég var krakki í Skógum undir Eyjafjöllum. Þá gældi ég við skáldanafnið Þóra í Skógum, eða Þóra í Vinjum, en húsið okkar hét Vinjar,“ segir Þóra sposk.

„En ég skrifaði alltaf fyrir skúffuna. Þegar tölvan mín krassaði einn daginn áttaði ég mig á að þarna höfðu glatast hundruð síðna af skapandi skrifum af því ég hafði ekki leyft mér að taka skrifin alvarlega. Ég varð að taka þetta skref. Ég dreif mig því í nám í ritlist í Háskólanum því það blundaði sannarlega í mér bók.“

Fyrirlestur Þóru hefst klukkan 20 í Hannesarholti í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×